Framsóknarflokkurinn hefur treyst ungu fólki til ábyrgðarstarfa, t.d. er Birkir Jón Jónsson yngsti formaður fjárlaganefndar/fjárveitinganefndar frá upphafi. Þriðjungur þingflokks Framsóknarflokksins er á SUF aldri. Ritari flokksins er á SUF aldri. Ámeðan SUF hvetur ungt fólk til að gefa kost á sér á framboðslista fyrir kosningarnar í vor heyrist annað hljóð frá Ungum jafnaðarmönnum.
Ungir jafnaðarmenn hvetja ákveðna þingkonu til að bjóða sig fram í 1. sætið í Suðurkjördæmi. Að vísu gaf hún það út seinna um daginn að hún ætli að hætta í stjórnmálum en skilaboð ungliðahreyfingarinnar eru engu að síður merkileg. Treysta þeir ekki öðrum úr kjördæminu til að leiða listann? Má maður eiga von á því að UJ taki afstöðu í fleiri kjördæmum? Munu þeir lýsa yfir stuðningi við fleiri sitjandi þingmenn flokksins eða er þingkonan á einhverjum sér samningi?
Ég sé fyrir mér fréttaflutninginn og upphrópanir á bloggsíðum ef SUF tæki upp á því að lýsa yfir stuðningi við einn frambjóðanda af mörgum í prófkjöri eða forvali á næstu dögum. Hvað þá ef viðkomandi væri ekki einu sinni á SUF aldri.
Hér held ég að ungu jafnaðarmennirnir séu eitthvað að misskilja hlutverk sitt eða kannski er ég bara að misskilja hlutverk ungra jafnaðarmanna?