Miðað við skoðanakannanir síðustu daga ættu niðurstöður kosninganna kannski ekki að koma á óvart. íšrslitin gífurlegt áfall fyrir Framsóknarflokkinn og ríkisstjórnina og skilaboðin gætu varla verið skýrari. Við tekur stjórnarandstaða í fjögur ár. Þrátt fyrir að kannanir bentu til þess að 40% kjósenda vildu flokkinn í ríkisstjórn fékk hann aðeins tæp 12% atkvæða. Reyndar vantaði aðeins herslumuninn á að Jón Sigurðsson kæmist inn á þing eða 11 atkvæði á landsvísu. Þá vantaði Herdísi Sæmundardóttur aðeins 105 atkvæði upp á að komast inn í Norðvesturkjördæmi. Nú situr engin kona á þingi fyrir kjördæmið. Ég hefði viljað fá þau tvö inn á þing.
Ég tók þátt í minni sjöundu kosningabaráttu í ár þar sem ég er með af einhverju viti. Mér fannst baráttan sem fram fór í fjölmiðlum vera óvenju þurr og leiðinleg. Hún snérist öðru fremur um skoðanakannanir og viðbrögð við þeim. Þegar tækifæri gafst til að ræða málefni fannst mér umræðurnar vera fyrst og fremst í upphrópunarstíl. Umræðan komst aldrei á það stig að rætt væri um innihald og framtíðarsýn. Þetta var baráttan þar sem málefnin urðu undir.
Þrátt fyrir lélega útkomu stendur þó upp úr þakklæti til þeirra sem gáfu mér tækifæri til að fá að starfa með skemmtilegu og mjög svo hæfu fólki í baráttunni. Með fullri virðingu fyrir öðrum þá vil ég sérstaklega nefna Fanný og Helga sem ég hef nánast verið með 24/7 á Laugaveginum síðustu vikur sem og efstu frambjóðendur í Kraganum og kosningastjórnina þar.
Ef ég væri að taka á móti óskarnum væri þetta líklega tímapunkturinn þar sem hækkað væri í tón listinni og mér hent út af sviðinu. Mér liggur margt á hjarta sem ég gæti deilt með ykkur næstu daga en vil samt bæta við einum ljósum punkti. Mér var bent á það í morgun að ég væri vara-, vara-, vara-, vara-, vara-, vara-, vara-, vara-, vara-, vara-, vara-, vara-, vara-, vara-, vara-, varaþingmaður.