Enn af fótbolta þar sem ég var af einhverjum ástæðum að lesa mér til um sögu KR búningsins. Hér segir frá því að fyrsta íslandsmótið í knattspyrnu hafi farið fram 1912 og KR-ingar hafi unnið mótið (FR vann mótið en seinna var nafninu breytt úr Fótboltafélagi Reykjavíkur í Knattspyrnufélag Reykjavíkur þar sem orðið „fótbolti“ þótti ekki nógu íslenskt). íkveðið var að nota liti þess félags sem sigraði ensku deildina þá um vorið í búninga handa íslandsmeisturunum. Liðið sem vann deildina á Englandi var Newcastle United og hafa KR-ingar spilað í svörtum og hvítum búningum síðan þá. Þetta er falleg saga en gengur ekki alveg upp. Stór galli við þessa frásögn er að Newcastle sigraði ekki ensku deildina 1912 heldur Blackburn, Everton lenti í öðru sæti og Newcastle varð í því þriðja. Ef búningar sigurvegaranna hefðu orðið fyrir valinu væru KR-ingar í dag í bláum og hvítum búningum.
Wikipedia segir líka að búningurinn komi frá Newcastle en að ástæðan sé sú að forsvarsmenn KR hafi einfaldlega valið búning ensks liðs sem var sterkt um aldamótin 1900 og er þar vitnað í bókina „Fyrsta öldin – Saga KR í 100 ár“. Þegar FR sigraði íslandsmótið 1912 lék liðið í hvítum treyjum og dökkum buxum. Það er ekki fyrr en 1921 sem KR-ingar skrifa íSí og greina frá því að búningur félagsins samanstandi af svart/hvítri röndóttri treyju og svörtum brókum. Getur verið að KR-ingar hafi valið búning sigurvegara ensku deildarinnar 1920 og breytt honum aðeins? West Bromwich Albion vann deildina í hvítum buxum og hvítum og dökkbláum röndóttum treyjum. Nú tek ég það fram að ég hef ekki séð myndir af KR búningum frá árunum 1913-1920. En hvers vegna ættu KR-ingar árið 1920 að velja búninga liðs sem var gott í ensku deildinni fyrir 20 árum. Ég spyr mig líka að því hvort Newcastle væri fyrsti kostur ef velja ætti búning liðs sem var sigursælt í byrjun 20. aldar?