Ég er nokkuð viss um að ríkisstjórnarflokkarnir töluðu ekki um að fækka opinberum störfum úti á landi fyrir síðustu þingkosningar. Þvert á móti lofuðu þeir að fjölga þeim. Eftir kosningar hlupu síðan þingmenn og ráðherrar Samfylkingarinnar um landsbyggðina eins og kálfar að vori og lofuðu öllu fögru í atvinnumálum hvar sem stigið var niður fæti. Næturgalinn og iðnaðarráðherrann lofaði til dæmis 80 nýjum störfum á Vestfjörðum. Hvar eru þessi störf í dag? Þau eru allavega ekki fyrir vestan.
Nú finnst mér tilvalið að rifja upp árangur Framsóknarmanna í ríkisstjórn 1995 til 1999. Fyrir kosningarnar 1995 lofaði flokkurinn að skapa 12.000 störf. Við það var staðið og gott betur. Störfin á kjörtímabilinu urðu í allt um 15.000. Samfylkingin lofaði 1.200 störfum óháð staðsetningu á þessu kjörtímabili. Nú þegar tæpur fjórðungur er liðinn af kjörtímabilinu er árangur flokksins sem fer með byggðamál ekki þannig að hægt sé að hrópa húrra fyrir. Búið er að skapa 30 slík störf í 12 ráðuneytum. Þau svör sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar gáfu í desember um efndir þessa loforðs gefa ekki tilefni til bjartsýni.