Ég skrapp sem sagt til Hamborgar vikuna sem leið, borgarinnar sem hefur fleiri brýr en Amsterdam og Feneyjar til samans. Það var ágætis tilbreyting að skreppa yfir næstu landamæri og komast þannig burtu frá skólanum í þrjá daga áður en lokaspretturinn hófst. Hamborg er áhugaverð borg með margar fallegar byggingar. Borgin er sérstök stórborg þar sem þar var ekki neinn aðall til staðar þar. Hún byggðist þess í stað upp í kring um verslun og viðskipti. Til marks um mikilvægi atvinnuveganna og aðalsleysið var ráðhúsið látið brenna þegar stór hluti borgarinnar brann 1842 en slökkviliðið einbeitti sér þess í stað að því að bjarga kauphöllinni. Ég á eftir að mæla með sögusafninu sem er skemmtilega sett upp.
St. Nikulásarkirkjan er annar áhugaverður staður sem skoðaður var. Hún varð fyrir sprengjuregni Bandamanna í júlí 1943 og stendur nú turninn einn eftir ásamt leyfum að útveggjum. Það er áhrifamikið að standa á torginu þar sem áður stóð kirkjuskipið og hugsa um þær hörmungar sem dundu yfir heiminn á meðan seinni heimsstyrjöldinni stóð. Verst er þó að hugsa til þess að enn líður fólk fyrir hörmungar af völdum hernaðar.
PS. Ég var búinn að lofa að láta vita hvort ég myndi finna frúnna. Hún fannst ekki. Þá fékk ég mér ekki hamborgara þar eins og stefnt hafði verið að.