Það er fátt betra í þessari veröld en að sitja góðan fund Framsóknarmanna. Miðstjórnarfundur flokksins í dag var þar engin undantekning. Ræða Guðna ígústssonar var góð þar sem hann fór vel yfir þau mál sem heitust eru í umræðunni í dag. Ekki var síður áhugavert að heyra erindi tveggja hagfræðinga sem töluðu um ástand og horfur í efnahagslífinu. Kom fram í máli þeirra að ríkisstjórnin og seðlabankinn væru að gera flest þau mistök sem hægt væri að gera við stjórn efnahagsmálanna.
íslendingar hafa jafnvel aldrei á lýðveldistímanum staðið frammi fyrir annarri eins kreppu eins og möguleiki er að skelli á okkur fljótlega. Það er því ekki nema von að kallað sé eftir aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Framundan er skörp djúp kreppa sem vara mun allt fram á þriðja ár. Kreppan mun m.a. leiða af sér aukið atvinnuleysi með haustinu sem verður allt að 5% samkvæmt spám hagfræðinga. Flestir virðast vera sammála um að hagvöxtur verði neikvæður strax á þessu ári. Undantekningin er Seðlabankinn sem spáir 2% hagvexti. Loks mun halli á ríkissjóði verða allt að 100 milljarðar á næsta ári.
Svar ríkisstjórnarinnar hefur verið að kreppan sé alþjóðleg og því sé lítið hægt að gera til að bregðast við. Það er vissulega rétt að það herðir að alls staðar í hinum vestræna heimi um þessar mundir en á íslandi virðist kreppan ætla að taka á sig aðra og verri mynd en í nágrannalöndum okkar. Fall hlutabréfa er til dæmis tvisvar til þrisvar sinnum meira hér en þar. Það er ýmislegt sem veldur. Á meðan ríkisstjórnir úti í heimi hófu að undirbúa sig fyrir kreppu fyrir ári síðan gerðu íslensk stjórnvöld ekkert. Niðurskurður þorskkvóta síðasta haust hafði áhrif líkt og 20% aukning fjárlaga milli ára sem var glapræði sem aðeins Framsóknarmenn gagnrýndu.
En þó ríkisstjórnin beri höfuð ábyrgð þurfum við sem einstaklingar líka að líta í eigin barm. Fyrirhyggja og festa íslendinga í efnahagslegri hegðun þeirra virðist vera takmörkuð. í samanburði við nágrannalöndin er sparnaður lítill á íslandi en á móti kemur að einkaneysla okkar er gífurlega mikil. Draga þarf úr einkaneyslunni sem nota bene bankarnir hafa fjármagnað að einhverju leyti eftir að þeir ruddust inn á íbúðalánamarkaðinn árið 2004. Leiðin til þess kann að vera að gera það eftirsóknarverðara að leggja pening í sparnað. Það er þó eins og svo margt annað undir ríkisstjórninni komið.