Ég hef gaman að því að rýna í þjóðernistákn. Eitt af því sem óhjákvæmilega fylgir áhuga mínum á þeim er áhugi á þjóðfánum. Þjóðfáni er eitt af þeim táknum sem sameinar hóp fólks sem getur átt ólíkan bakgrunn. Það má meir að segja gera tilraun til þess að sameina íbúa Kosóvó undir sama flaggi. Þannig er það eitt af fyrstu verkum hverrar þjóðar að velja sér fána. íbúar Kosóvó völdu fánann sem sést hér að neðan úr hópi tæplega þúsund innsendra tillagna. Hinn nýji fáni er sem sagt með sex stjörnum sem eiga að tákna ólíkan uppruna íbúa landsins eftir því sem ég kemst næst og gullnu Kosóvó þar fyrir neðan. Til þess að sanna fyrir ykkur áhuga minn á fánum þá hefur Kýpur hingað til verið eina landið með útlínur ríkisins á þjóðfánanum. Fáninn minnir mig hins vegar á fána Bosníu-Herzegovínu og gamla fána Lýðveldisins Kongó, þ.e. þann sem var á undan núverandi fána.
Þó gerð sé tilraun til að sameina ólíka hópa undir flagginu eru ekki allir á eitt sáttir við það þar sem margir Albanir, sem eru 92% íbúanna, vildu fána sem minnti á þeirra uppruna, jafnvel nota fána Albaníu. Fjölmiðlarnir sýna okkur oftast myndir af fólki úti á götu með þann fána, rauðan með svörtum tvíhöfða erni annars vegar og hinn hvíta, bláa og rauða fána Serbíu hins vegar. Sjálfsagt verður eitthvað í að við sjáum fólk dansa í þúsunda tali með nýja fánann sem er málamiðlun og ætlaður til þess að koma til móts við minnihlutahóp Serba sem ekki sætta sig við hið nýfengna sjálfstæði.