Hafið þið tekið eftir því að það er ekki þingfundur í dag? Hafið þið tekið eftir því hvaða mál ríkisstjórnin lagði mesta áherslu fyrsta „alvöru“ starfsdag þingsins? Líklega ekki þar sem spunavélar ríkisstjórnarflokkanna hafa lagt á það mesta áherslu að ræða um grænt herbergi á fyrstu hæð þinghússins, líklega til þess að bægja athyglinni frá eigin verkleysi. Eins og svo oft áður er aðeins hálfur sannleikurinn sagður. Látið er líta út eins og þingmenn framsóknarmanna hafi gerst hústökumenn eða réttara sagt herbergistökumenn. Þess er ekki getið að samkomulag náðist í þessu máli í síðustu viku á þinginu. Þingflokkur VG fær stærra herbergi ská á móti græna herberginu með gluggasýn að Austurvelli. Framsóknarmenn funda í herberginu með dómkirkjuna sjáanlega út um gluggana.
Mál þetta snýst ekki um hefðir og venjur. Það snýst fyrst og fremst um aðbúnað þingmanna. Þingmenn VG eiga ekki að þurfa funda í allt of litlu, loftlausu herbergi. Það eiga þingmenn framsóknarmanna ekki heldur að þurfa að gera. Það þingflokksherbergi sem VG er í núna tekur 11 manns í sæti. Það segir sig sjálft að 14 manna þingflokkur getur ekki starfað í því rými enda sitja fleiri þingflokksfundi en þingmenn. Þangað koma líka gestir. Þingflokksfundi framsóknarmanna sitja t.d. 9 þingmenn, 3 starfsmenn og 2 fulltrúar SUF og LFK. Þetta gera 14 manns sem sitja alla fundi auk gesta sem eru boðaðir á fundi reglulega. Það segir sig sjálft að fyrst 14 vinstri græn komast ekki fyrir í 11 sæta þingflokksherbergi, þá gera 14 framsóknarmenn það ekki heldur.
Síðan má líka spyrja sig hvers vegna fjölmiðlar fjalli ekki um þá afstöðu þingmanna vinstri grænna að neita að flytja skrifstofuaðstöðu sína í hús við Aðalstræti eins og skrifstofustjóri Alþingis hafði ákveðið?