Leifar Páls postula fundnar

Það er óneitanlega skemmtilegt að sjá Morgunblaðið auðmýkja sig með lélegum fréttaflutningi. Frábært dæmi er hér af því Vatíkanið heldur því fram að líkamsleifar Páls postula hafi fundist. Það er engan fyrirvara að finna í frétt Morgunblaðsins um að þetta gætu verið vafasamar fullyrðingar og þeir koma með líka með þessa dásamlegu línu:

Páll postuli var hálshöggvinn í Róm árið 67 e.Kr.

Eins og þetta sé einhvers konar sagnfræðileg staðreynd. Við getum varla verið 100% viss um að maður hafi verið til og Mogginn ákveður að tímasetja dauða og nefna dánarstað og dánarorsök. Ég get ekki ímyndað mér að margir frjálslyndir trúmenn myndu koma koma með svona fullyrðingar.

Mogginn hefur þó allavega breytt fréttinni því upphaflega stóð að leifar Páls væru fundnar en núna stendur að Páfinn segi að þær séu fundar.

Michael Jackson

Það var meira en lítið skrýtið þegar við komum heim úr bíó (sólarlagsáhorfi) að heyra að Michael Jackson væri dáinn. Ég hlustaði á nokkur lög, á skammarlega fá, og kíkti á myndböndin sem fólk var að setja inn á Facebook. Ég var búinn að gleyma sumum lögunum og ég var svo sannarlega búinn að gleyma því hvað kallinn gat dansað. Maður er vanur endalausum myndböndum með stórum samhæfðum dansatriðum en þau eru bara brandari miðað við hvernig hann gat hreyft sig.

Ég setti líka sjálfur inn löngu útgáfuna af Thriller. Þegar ég var mjög ungur drengur laumaðist Hafdís systir mín til að sýna mér það myndband sem ég átti væntanlega ekkert að fá að sjá.

Ég á tvö lög með Jackson sem fáir eiga. Það er útgáfa af State of Shock þar sem Freddie syngur og There Must be More to Life Than This þar sem Jackson syngur. Þeir voru, áður en Jackson varð of furðulegur, góðir vinir. Það var MJ sem stakk upp á því að gefa út Another One Bites the Dust sem var mesti smellur Queen í BNA.

Það er líka ágæt saga til af því þegar Freddie heimsótti Michael á heimili hans sem var forveri Neverland. Freddie þótti lítið til koma, sjálfur eyddi hann peningunum í listaverk frekar en leikföng, og sagði: „What a waste, all that money, and no taste“.

Ég veit ekkert frekar en flestir hvort að Jackson var sekur um það sem hann var ásakaður um. Ég er hins vegar á því að maðurinn hafi átt mjög bágt. Hann varð of frægur of ungur og uppeldið sjálft var frekar vafasamt. Síðustu árin þá einfaldlega vorkenndi maður honum.

Ég ætla því nú frekar að líta til þess hvernig hann var þegar ég var lítill. Frábær söngvari og  lagahöfundur. Ég held að það sé betra.

Útskriftarkvöldverður

Ég eyddi kvöldinu með Tomma, Dagbjörtu, Júlíönu og Bryndísi. Gaf þeim pizzur og Ouzo sem ég fékk frá Terry. Við spjölluðum um fortíð og framtíð. Júlíana og Tommi voru öflug í hamfarapælingum.

Rekkjan og Betra bak

Við Eygló vorum að fá okkur nýtt rúm. Við tókum á föstudaginn og fórum í tvær búðir. Við fórum fyst í Betra bak. Ég varð strax frekar áhugalaus um að versla við þá búð af því að það var ekkert merkt þar. Eygló talaði við afgreiðslukonu sem ætlaði strax að fara að selja okkur eitthvað rúm sem kostaði meira en hálfa milljón. Þegar henni var gert grein fyrir því að það væri ekki í bögdetinu okkar þá sýndi hún okkur eitthvað annað rúm sem kostaði víst eitthvað aðeins minna. Við spurðum hve mikið það kostaði og hún þurfti þá að fara í tölvu og fletta því upp, það tók svona 3-5 mínútur hjá henni.

Munurinn að fara í Rekkjuna sem er rétt við hliðina var algjör. Allt nákvæmlega merkt. Við gátum bara hunsað það sem var yfir okkar verðmarki og einbeitt okkur að hinum (og flest var reyndar mjög hóflega verðlagt sýndist manni). Það var líka engin uppáþrengjandi. Okkur var boðin aðstoð en annars gátum við bara trítlað á milli rúma og fundið hvað okkur líkaði.

Reyndar gerðist svoltið skondið þegar við vorum í þessu öllu. Gömul kona kom inn í búðina þar sem lágum í rúmi beint við innganginn. Hún byrjaði að rausa eitthvað um að það væri nú lúxus að fá að prufa rúmin og spurði okkur hvað það kostaði. Við héldum fyrst að hún væri að grínast en svo var ekki. Hún var bara svoltið skrýtin en þó aðallega bara fyndin.

Við fórum aftur í Rekkjuna á laugardag þar sem við vorum að velja milli tveggja dýnutegunda. Við spurðum afgreiðslumanninn hver væri munurinn á þeim og hann sagði að í raun væri þetta bara spurning um hvað okkur þætti þægilegra. Það var töluverður verðmunur á þessum dýnum og hann hefði alveg getað farið að tala um að sú dýrari væri miklu betri án þess að vissum nokkuð í raun um það. En hann gerði það ekki.

Ég var því ákaflega ánægður með Rekkjuna og, svo lengi sem rúmið valdi ekki vonbrigðum, reyna að versla þar aftur og benda fólki í kringum mig að versla þar líka.

Beamish

Þegar ég sé Beamish þá fæ ég Cork nostalgíu. Ég hef raunar aldrei smakkað þessa bjórtegund og tel engar sérstakar líkur á að ég geri það. En á hverjum degi sem ég gekk í skólann sá ég bruggverksmiðjuna.

Fyrst þegar þýsku skiptinemarnir komu til Cork keyptu þeir sér Guinness á kránni. Þeir gerðu þetta af því að þeir vissu að þetta var írskt. Þegar þeir voru búnir að vera í smá tíma í borginni skiptu þeir yfir í Beamish. Guinness er frá Dublin og maður drekkur ekki svoleiðis ef maður vill vera eins og innfæddur í Cork.

En já, það væri gaman að rölta um miðborg Cork.

Haldið upp á útskrift

Í gær hélt ég ekki upp á útskrift og ætla heldur ekki að gera það í dag. Ég hélt upp á þrítugsafmælið mitt fyrr á árinu og fannst það nóg. Á morgun fæ ég hins vegar nokkra í kvöldmat sem hafa fylgt mér í meistaranáminu og fæ mér Ouzo með þeim.

Þegar ég fékk BA-gráðuna hélt ég upp á það á sunnudeginum en fór bara í veislu hjá öðrum á sjálfan útskriftardaginn. Það var um kvöldið í Friðarhúsinu og það voru Sverrir Aðalsteinn og Auður Lilja sem voru að útskrifast. Mér þótti því skemmtilegt að mér var boðið í veislu í gær í Friðarhúsinu hjá Steinunni Rögnvalds (mágkonu Auðar) og Þórhildi (systur Sverris). Ég ákvað að mæta án þess þó að tilkynna að ég tæki þar á móti gestum og gjöfum.

Það var mikið af skemmtilegu fólki þarna. Aðallega róttæklingar. Hápunktur kvöldsins náðist með skemmtilegum söng anarkistana.

Ég lenti þarna í samræðum við mann sem ég hef oft heyrt um. Þessar samræður byrjuðu af alvöru þegar hann spurði mig hvor ég væri ekki mikill t…. og síðan heyrði ég ekki rest. Ég hugsaði með mér „ónei, einhverjar umræður um trúmál“ en síðan endurtók hann þetta og var þá að spyrja hvort ég væri ekki mikill Týsaðdáandi. Það er nú eitthvað sem er mikið skemmtilegra að spjalla um og við eyddum miklum tíma í umræður um þessa uppáhaldshljómsveit mína. Spjallfélaginn var Márus, bróður Sverris og Þórhildar.

Ég fékk líka tækifæri til að sjá minn hluta af myndasýningunni sem hefur verið þarna uppi síðan í apríl. Þarna eru myndir úr Búsáhaldabyltingunni en mínar eru allar af hinum ýmsustu skiltum enda var ég þarna aðallega í hlutverki þjóðfræðings. Mínar myndir eru því alls ekki jafndramatískar og margar aðrar þarna heldur sýna sköpun almennings sem er að ganga í gegnum óvissutíma. Það heillar mig einmitt og það eru einmitt góð rök fyrir því að ég hafi valið mér rétt nám.

Útskrifaður

olima
Óli Gneisti Sóleyjarson meistari

Ég var að fá í hendurnar prófskírteini sem staðfestir að ég er með meistaragráðu í þjóðfræði. Í gríni get ég sagt að ég hafi loks verið að klára MA – tíu árum á eftir áætlun. Ég var ákaflega snemma í röðinni, númer 21, og ákvað að fara skömmu eftir það svo ólétta konan mín gæti komist heim að slaka á (37 vikur í gær). Ég þekkti marga á sviðinu. Einn fyrrverandi kennari, hann Jón Torfi, var þar og síðan ýmsir sem ég hef umgengist í námi, starfi og sem hagsmunafulltrúi nemenda.

Ég ákvað að heiðra tengsl mín við keltneskar þjóðir með klæðaburði mínum. Fyrsti áfanginn sem ég tók á meistarastigi var Menningararfur Skota (þó hann hafi raunar bara kallast Menningararfur) og síðan augljóslega þrír mánuðir á Írlandi.

Ég ákvað að uppfæra strax síðuna mína hér til hliðar (Um Óla) en mig grunar að ég þurfi að uppfæra hana aftur innan skamms.

En já, ég er kátur.

Kannabis

Ég er fyrir nokkru farinn að hallast að því að réttast væri að leyfa kannabis á Íslandi. Þetta er ekki af því ég er svona hrifinn af þessu efni enda hef ég aldrei prufað það.

Helsta rökin eru að bannið er ekkert að virka og þeir einu sem græða á banninu eru glæpamenn. Við værum betur stödd með þetta á yfirborðinu. Setjum þetta í ÁT(K?)VR og skattleggjum það.

Ég verð að hrósa landlækni fyrir að taka sér tíma til að tjá sig svona rökfast um málið. Það hefði verið ákaflega auðvelt fyrir hann að hunsa málið.

Undarlegt vandamál með Facebook share (leyst!)

Eftir breytingarnar á blogginu mínu hefur komið upp vandamál með það að senda færslur á Facebook. Það virðist vera allt í lagi að deila öllum færslum nema þeirri nýjustu. Kannski að ég sjái hvert vandamálið er núna með nýrri færslu.

Uppfært:
Sem gekk upp. Vandamálið var ákaflega einfalt og hefur væntanlega verið lengi til staðar. Facebook fílar ekki íslenska stafi – ð allavega. Ætli sé leið til að fá WordPress til að hætta að nota íslensku stafina alveg í slóðum?

Barnabloggið fésbók tengt

Ég hef haft lykilorð á möppunni sem barnabloggið er. Það er hálf óþægilegt þar sem WordPress höndlar illa að setja þannig inn myndir. Í dag ákvað ég að breyta til.

Ég setti inn Facebook Connect og annað plugin sem stjórnar því að hvaða efnisflokkum fólk hefur aðgang að. Ég mun einfaldega bara hafa einn flokk sem allir sjá (en innskráðir ekki) og þar eru leiðbeiningar um hvernig má tengjast með hjálp Facebook. Ég þarf síðan að veita fólki aðgangsheimild eftir að það hefur skráð sig.

Augljósi ókosturinn er að sumir (Svenni og Hrönn aðallega) eru ekki með Facebook. Ég get hins vegar búið til aðgang í WordPress sjálfu fyrir þetta fólk en það er meira vesen.

Kerfið er ekki alveg komið af stað og enn sem komið er þá er mappan lykilorðavarin. Þeir sem hafa þegar aðgang geta farið þarna inn og tengt þessu Facebook reikning sínum strax svo að þetta verði auðveldara þegar ég set kerfið af stað. Endilega kíkið þarna inn. Þið hin sem hafið ekki fengið aðgang en viljið getið beðið mig eða Eygló um aðgang.

Það er annars líka voðalega þægilegt við þetta kerfi að maður sér hverjir hafa verið á svæðinu.

Ég reyndi einu sinni að hafa myndasíðu þar sem fólk bjó sér til eigin aðgang og ég stjórnaði hvað fólk gat skoðað. Vandinn var að fólk gleymdi aðgangsorðum sínum. Hérna er það ekkert vandamál á meðan Facebook er enn í gangi.

En ég á eftir að finna leið til að Facebook myndir komi. Ég held að það verði ekki mikið mál.

Facebook tengingarfikt

Í gær tók ég mig til og fiktaði heilmikið í síðunni. Tilgangurinn var að prufa Facebook Connect. Sú tækni gerir fólki kleyft að nota Facebook reikning til að kommenta hér. Ég er samt ekkert búinn að gera það að skyldu.  Mér þykir þetta samt áhugaverður kostur. Þið sem viljið prófa getið smellt hér til hliðar á Facebook Connect hnappinn.

Ég á annars eftir að laga til þemað betur.

Ný truflun

Þar sem ég er ákaflega latur hef ég ekki enn tilkynnt að Árný frænka hefur bæst við á blogglénið mitt. Hún er tíundi bloggarinn á Truflun. Það er þó þannig að Jóhanna er frekar duglítil þessa daganna í blogginu, eða þetta árið, og Íris hefur ekki skrifað neitt lengi. Daníel og Dagbjört hanga inni með stöku bloggi eins og Eygló. Hafdís, Hjörvar og Eggert eru nokkuð regluleg. Sjálfur er ég óvenju duglítill þessa daganna.

Ég er að sjálfssögðu glaður með að halda úti þessari eyju óháðra bloggara á sama tíma og bloggið hefur að miklu leyti verið stofnanavætt og/eða vikið fyrir Facebook.

Undarlegar fýsnir uppfylltar

Ég verð að játa að ég skil ekki alveg hvað það er sem heillar mig við bakstur. Það er nefnilega eitthvað sem ég fæ út úr því. Vissulega er gaman að búa til eitthvað sem er gott á bragðið og að gefa öðrum slíkt en það er eitthvað meira.

En ég hef verið að gera tilraunir með brauðbakstur í viku. Í dag keypti ég mér almennilegt aflangt form og prufaði. Útkoman var nokkuð góð og í raun stórkostleg miðað við það sem ég bjó til fyrir viku síðan. Í þetta skipti breytti ég engu frá uppskrift Nönnu nema að ég setti með kornblöndu sem við keyptum í Krónunni í gær.

Brauð númer 4
Brauð númer 4

Lengi vel hefur mig langað að læra að búa til almennileg brauð en lítið gengið. Þau hafa vissulega verið æt og jafnvel góð en almennt asnaleg í laginu og mislukkuð að ýmsu leyti. Einfalda uppskriftin frá Nönnu varð mér hvatning til að læra þetta og ég er núna nokkuð öruggur með mig og stefni á að gera fleiri tilraunir í framtíðinni.

Og ég fæ eitthvað skrýtið út úr þessu. Eygló sagði að ég væri að horfa á brauðið eins og þetta væri meistararitgerðin mín en hið augljósa er að ég horfði aldrei svona á ritgerðina mína.

Uri Geller og aspartam

Ég myndi vilja rannsaka það nákvæmlega en mig grunar sterklega að það sé fylgni milli þess að trúa að Uri Geller beygi í alvörunni skeiðar og að trúa því að aspartam sé hættulegt. Sem er stórfurðulegt ef maður ætlar ekki bara að skrifa þetta á trúgirni og skort á gagnrýnni hugsun.

Undarlegar barneignir

Mig dreymdi að ég væri í einhverju partíi með Eygló þar sem voru meðal annars Elli og Guðrún Svava. Þegar við vorum að fara heim er okkur sagt að þau séu að fara upp á fæðingadeild. Við förum af einhverjum ástæðum beint þangað. Þegar þangað er komið kemur í ljós að það er Elli sem er að fara eignast barnið. Ein ljósmóðirin segir að það sé stundum svona. Ég sagði þá eitthvað um að Elli væri líka í svo góðum tengslum við sína kvenlegu hlið en Guðrúnu Svövu fannst það ekki fyndið.

Rugl könnun

Skoðanakönnun sem Capacent gerði fyrir Heimssýn er einhver sú bjálfalegasta sem ég hef séð. Spurt var:

Hversu miklu eða litlu máli finnst þér skipta að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort Ísland eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu?

Aðalvandamálið er að sjálfssögðu að spurningin er afskaplega óskýr. Í raun er ekki verið að spyrja hvort fólk vilji kjósa um aðildarumsókn. Það er verið að spyrja hve miklu máli það skipti. Hvað á sá að segja sem er mjög andvígur því að fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla? Ætti hann ekki að segja að það skipti hann miklu máli? Líklega er þó mesta hættan á að fólk misskilji spurninguna á þá leið að verið sé að spyrja um hvort eigi að fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um endanlegu inngönguna.

Hver samdi þessa hálfvitalegu spurningu og hvers vegna í ósköpunum samþykkir fyrirtæki, sem þykist vilja taka sig alvarlega, að spyrja hennar? Og af hverju byrjar fjölmiðlafólk ekki á því að hafa samband við Heimssýn og Capacent til að spyrja þessara spurninga?

Matseðlar og verð

Ég er mjög hrifinn af því þegar veitingastaðir hafa matseðla og verð fyrir utan staðinn sjálfan þannig að maður geti rölt á milli og skoðað. Um leið er ég hrifinn af því að veitingastaðir setji slíkt á heimasíður sínar. Mér líkar við ítarlega matseðla sem segja nákvæmlega hvað er í réttinum.

Við Eygló erum að nýta frelsið og förum reglulega út að borða og í bíó. Á þriðjudaginn ætluðum við að prufa veitingastaðinn Volare. Ég fann heimasíðuna en þar er enginn matseðill. Þeir segja að það sé vegna þess að þeir vilji breyta honum reglulega eftir því hvaða hráefni er til. Sjálfur skil ég ekki alveg hvað er svona erfitt við að uppfæra heimasíðu á hverjum degi. Væntanlega eru þetta yfirleitt einhverjir af sömu réttunum þannig að þetta er klippilímivinna.

Við ákváðum að kíkja þarna samt. Það var matseðill fyrir utan. Vandinn var að hann var handskrifaður og illlæsilegur. Þar komu bara fram nöfnin á réttunum sem voru ekkert kunnugleg eða girnileg. Það gæti vel verið að eitthvað hafi verið stórgott þarna en aðstendur Volare virtust ekki spenntir að upplýsa okkur um það.

Við ákváðum því að trítla upp að öðrum stað aðeins fyrir ofan. Á leiðinni rákumst við á Núðluhúsið og matseðilinn þar. Við ákváðum því bara að stökkva þangað og borða. Allt mjög greinilegt og augljóst. Líka myndir með. Ég var sáttur með að hafa ekkert verið að eltast við Volare.

Góð kynning á vafasömum vef

Það er áhugavert hve viljugir fjölmiðlamenn og símafólk er að kynna Íslendingum slóð á vafasama vefsíðu. Símafyrirtækin segjast hafa lokað aðgangi en staðreyndin er sú að það eru alltaf til leiðir að komast framhjá svona lokunum. Allavega held ég að eina sem hefur áorkast sé að síðan er vel auglýst.

Eru engir að vinna hjá símafyrirtækjunum eða fjölmiðlum sem skilja hvernig netið virkar?

Hlutir sem ættu ekki að koma á óvart

Það kom mér ekki á óvart þegar Árni Johnsen reyndist óheiðarlegur.

Það kom mér ekki á óvart þegar Friðrik Ómar kom út úr skápnum (nema að ég var smá hissa að hann hafi verið í skápnum).

Það kom mér ekki á óvart að Björn Jörundur skyldi vera tengdur dópmálum.

Að sama skapi koma öll þessi mál í Kópavogi mér ekkert á óvart. Maður treystir ekki Jabba.

Illskást

Eftir að hafa lesið mikið með og á móti þá er ég nokkuð viss um að sá samningur sem er nú uppi á borðinu sé það skásta sem við getum vonast eftir. Í raun sé ég bara ekki neitt annað í stöðunni.

Ef einhver hefur einhverja aðra vitræna lausn á málinu mætti sá láta vita af henni því ekki hefur neitt slíkt heyrst í umræðunni.

Myndskilaboð – Brauð

Image004.jpgÉg hef gert einstaka tilraunir við brauðbakstur en í kvöld gekk það mun betur en áður.
Ég notaði grunninn frá Nönnu til að gera deig á laugardaginn (fyrir utan að ég setti dáltið af heilhveiti). Það gekk ágætlega en það varð ákaflega klúðurslegt í laginu. Ég tók í dag afganginn  af deiginu og notaði lokaðan leirpott og sleppti því á móti að vera með vatn í ofninum. Þetta var útkoman.
Þetta er mjög gott og var uppistaðan í kvöldmatinum okkar.  Ég stefni á að gera meira af þessu á næstunni. Í dag keypti ég líka EuroShopper hveiti til að þetta verði sem ódýrast.

Icesave

Mig langar helst að senda feðga til Bretlands og bjóða þarlendum að hrista klinkið úr vösum þeirra. En ég er nokkuð viss um að sá kostur sé löngu úr stöðunni.

Mér fannst þetta áhugaverðustu punktarnir sem komið hafa fram um málið í dag.

Það er greinilega margt í gagnrýni stjórnarandstöðunnar sem er komið til vegna fljótfærni. Til dæmis tal um að gengið lækki við afborganir virðist ekki miðast við þá staðreynd að þessar greiðslur fara almennt ekki fram á Íslandi. Um leið eru útreikningar á vöxtum ekki miðaðir við það að greitt verði jafnóðum af höfuðstólnum þegar eignir eru seldir. Um leið eru þarna eignir sem munu sjálfar bera vexti sem vinnur á móti vöxtunum af Bretaláninu.

Pólitík er ekkert sérstaklega góð leið til að nálgast staðreyndir.

Ef trúleysi væri trú…

…þá hefði mér væntanlega verið boðið á samtrúarlega friðarstund í Hallgrímskirkju fyrir hönd Vantrúar. En svona er þetta. Sömu prestar og guðfræðingar sem eru uppteknir að útskýra fyrir öllum að trúleysi sé trú og Vantrú sé í raun trúfélag láta sér ekki detta í hug að bjóða okkur að vera með á svona viðburðum. Ekki það að ég hefði þegið boðið nema kannski upp á djókið.