Samtök verslunar og þjónustu sendu frá sér tilkynningu í síðustu viku þar sem kom fram að lyfjaverð á íslandi væri ódýrara en í Danmörku og Svíþjóð. Af því tilefni datt mér í hug að setja hér inn smá sögu. Ég lenti nefnilega í því í síðustu viku að þurfa fara til læknis og í kjölfarið þurfti ég láta reyna á lyfjamarkaðinn hér. Svei mér þá, þær tröllasögur sem ég hafði heyrt um ódýrara lyfjaverð hér virðast bara vera sannar. Ég fékk uppáskrifað lyf sem kostar á íslandi um 3500 krónur og þá eru 28 töflur í boxinu. Lyfið í Danmörku fékk ég í 100 töflu boxi og kostaði það mig 31 danska krónu sem miðað við hátt gengi eins og ég bý við í dag eru um 500 íslenskar krónur. Til þess að einfalda dæmið þá kostar taflan á íslandi 125 krónur á meðan hún er á 5 krónur í Danmörku. Verðmunurinn er tuttuguogfimmfaldur og þykir mér það svakalegt.
Þó mörg skref hafi verið stigin á síðustu árum til þess að lækka lyfjaverð þarf að gera enn betur. Birkir félagi minn Jónsson hefur m.a. beitt sér fyrir því að lækka virðisaukaskatt af lyfjum niður í 7%. Vonandi tekst honum að hafa einhver áhrif á stefnu stjórnarflokkanna og ná þessu brýna máli í gegn.