Fljótlega get ég byrjað að segja: „Jáh, ég heimsótti Kúbu meðan Castró var og hét“. Eða nei annars, ætli ég geymi þessa setningu þar til í ellinni. Annars eru tíðindi gærdagsins af afsögn Castró eru ekki óvæntar fréttir. Ég held að flestir hafi nú búist við því að hann myndi segja af sér fyrr en seinna. Engu að síður eru það stór frétt þegar eitt af stóru nöfnunum í stjórnmálasögu 20. aldar stígur niður af stalli sínum. Þó fordæma megi margt í stjórnartíð hans hefur honum engu að síður tekist að byggja upp ríki með góðri læknisþjónustu og góðu menntakerfi. Á Kúbu er meðalævilengd t.d. svipuð og í Danmörku og hlutfall læsra er 0,8% hærra þar en hér.
Það að heimsækja eyjuna er ógleymanleg lífsreynsla. Landið er gífurlega fallegt og ríkt af auðlindum. Þjóðarframleiðsla þar er hins vegar ekki mikil og fátæktin er mikil. Þegar spjallað er við eyjaskeggja segja þeir reyndar að þar sé enginn fátækur. Allir hafi það jafn gott. Margt er að breytast á Kúbu, m.a. með auknum straum ferðamanna. Það er eftirsótt að starfa nálægt vinsælum ferðamannastöðum enda er hægt að vinna sér þar inn á einum degi margfalt það sem gengur og gerist hjá hinu opinbera.
Eitt af því sem er sérstakt við Kúbu er sendiráð Bandaríkjanna. Ég held að ég geti fullyrt að sendiráðið sé nokkuð einstakt í flóru sendiráðsbygginga í heiminum. Á toppi byggingarinnar komu Bandaríkjamenn fyrir ljósaskilti þar sem birtast neikvæðar upplýsingar frá þeim um stjórnvöld á Kúbu. Ég veit ekki um annað sendiráð í heiminum þar sem slíkt er gert. Svörtu fánarnir með hvítu stjörnunum fyrir framan sendiráðið eru svar stjórnvalda á Kúbu við ljósaskiltinu. Þar er einn fáni fyrir hvern Kúbverja sem látist hefur í hryðjuverkaárásum Bandaríkjamanna síðan Castró komst til valda.
Lögreglubílarnir eru líka sérstakir. Hér er einn sem við mættum á leið okkar til Havana. Efnahagur landsins var í þokkalegu ástandi þar til Sovétríkin tóku að liðast í sundur. Bílakostur eyjaskeggja er því að uppistöðu til frá þeim tíma er hægt var að skipta á vörum við Sovétríkin.
Loks er hér mynd af húsi fyrrverandi iðnaðarráðherrans, Che Guevara sem er engin smá smíði með útsýni yfir höfnina í Havana.