í dag hitti ég Henning Kure og fór með honum á barinn ásamt tveimur öðrum nemendum í norrænu deildinni hér. Jamm, ég umgengst selebb í útlandinu. Fáfróðir spyrja sig sjálfsagt núna, um hvern ég er eiginlega að tala. Jú, ég er að tala um höfund Valhalla bókanna, eða réttara sagt bóka 2-14. Nú nýverið skilaði hann inn handritinu að 15. bókinni sem verður sú síðasta í röðinni. Hún kemur líklega út á næsta ári og fjallar m.a. um frostavetur í Valhöll og Freyju og brísingamenið. Það verða tímamót enda hafa sögurnar haft mikil mótunaráhrif á hugmyndir ungs fólks, sérstaklega í Skandinavíu um hin heiðnu goð.
Fyrstu bækurnar eru að mínu mati þær bestu, þá var að mestu unnið með þekktustu persónurnar úr goðafræðinni og þekktustu sögurnar. Ég held að ég fari rétt með að fyrstu þrjár hafi komið út á íslensku en svo ekki söguna meir. Ég þekki reyndar ekki íslensku útgáfuna, eða gæðin á þýðingunni þar sem ég hef aðeins lesið bækurnar á frummálinu. En er ekki kominn tími til að þýða restina? Annars hefur verið erfitt að fá dönsku bækurnar heima, eða það var það allavega þar til ísgeir pantaði nokkur eintök í Bóksöluna. Það var mjög gott framtak.