Heep, Purple, Lónið, Godfather, My so-called life og Elliðaárdalur

Ég er komin aftur til borgarinnar. Flugið hingað gekk merkilega vel, bara allt samkvæmt áætlun. Gunnsteinn afi, Ásta Hanna og mamma skutluðu mér í Egilsstaði og svo komu Reynir afi og Óla frá Norðfirði og borðuðu með okkur.
Óli og sólin tóku svo á móti mér á Reykjavíkurflugvelli, en þau hafði ég ekki séð í 10 daga (reyndar smá ýkjur, sólin gægðist fram alveg tvisvar meðan ég var á Vopnafirði).

Við Óli fórum svo á tónleikana með Uriah Heep og Deep Purple.  Ég var búin að hlakka mikið til að sjá Uriah Heep á tónleikum og þeir stóðu sko alveg undir því. Þvílík snilld að sjá þá og heyra. Við vorum framarlega beint fyrir framan Mick Box og það var bara frábært. Mikil gæsahúð fylgdi July Morning og mikið stuð að fá Easy Livin í uppklappinu. Verst að þeir skyldu bara spila í klukkutíma. Ég hafði ekki miklar væntingar til Deep Purple en þeir stóðu eiginlega ekki undir þeim. En jújú, það var alveg gaman að heyra í þeim.

Á mánudaginn fórum við í Bláa lónið. Ég vann 2 miða í það á Þjóðbrókarþorrablótinu í febrúar. Merkilegt að ég hef unnið í öllum spurningakeppnum á vegum Þjóðbrókar sem ég hef tekið þátt í. Jólakvissin í fyrra og hittifyrra og svo þetta. Veit ekki hvort það segir meira um mig eða þjóðfræðinema almennt 😉 En Lónið var fínt. Ágætt að skreppa þangað annað slagið. Gott að maka á sig drullu og slappa af 🙂

Þegar ég kom aftur úr sveitinni til borgarinnar beið mín afmælisgjöf nr. 2 frá Óla. My so-called life á DVD!!! Ég elskaði þessa þætti og geri enn!
Við Óli gerðum svo með okkur samning. Mánudagskvöldið fór því í að horfa á fyrstu Godfather-myndina. Stórlega ofmetin (ég meina hún er í fyrsta sæti á top 250 listanum á imdb.com!) en engu að síður ágæt. Svo horfðum við á fyrsta þáttinn af My so-called life. Þeir hafa elst merkilega vel, 90’s er æði. Nú er bara að finna tíma til að horfa á næstu Godfather mynd.

Það var indælt veður í dag. Við Óli röltum niðrí Elliðaárdal eftir vinnu hjá mér í kvöld. Það var yndislegt. Við ættum að gera það oftar.

Hjördís og Helga áttu afmæli í gær (28. maí). Mér finnst fyndið að þær eru fæddar nákvæmlega sama dag og þær hafa báðar lært bókasafns- og upplýsingafræði. En þær eru samt mjög ólíkar. Til hamingju báðar tvær 🙂

Góða nótt, elskurnar mínar.

Að heiman og heim

Jæja, ég fer aftur heim til Reykjavíkur á morgun. Ótrúlegt hvað tíminn líður hratt. Fannst 10 dagar svo rosa mikið en svo eru þeir allt í einu liðnir. Náði að gera ýmislegt; hjálpa til í fjárhúsunum, heimsækja ömmu, afa og Ástu Hönnu nokkrum sinnum, fara í sund, skoða gamlar myndir og eyða heilmiklum tíma með pabba og mömmu. En ég náði ekki að setja niður kartöflur og ekki að fara í neinn almennilegan göngutúr.  Göngutúrinn bíður betri tíma og kartöflurnar komast vonandi ofan í jörðina án minnar hjálpar þetta vorið.

En þó ég eigi eftir að sakna sveitarinnar þá er heilmargt skemmtilegt sem bíður mín. Ber þar fyrst að nefna tónleika „í kvöld“ með Uriah Heep og Deep Purple. Ó, hvað ég hlakka til 🙂 Svo verður ósköp gott að knúsa Ólann sinn 🙂

Ný ríkisstjórn

Jæja, þá erum við búin að fá nýja ríkisstjórn.

Ég hef áhyggjur af því að Sjálfstæðisflokkurinn hafi bæði menntamálaráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið á sinni könnu. Ég er ein af þeim sem tel að allir eigi rétt á menntun og heilbrigðisþjónustu. Ég óttast að ef áform Sjálfstæðisflokksins um frekari einkavæðingu innan þessara málaflokka nái fram að ganga hafi sumir meiri rétt en aðrir.

Mér finnst Guðlaugur Þór ekkert hafa að gera í heilbrigðisráðuneytið. Illskrárri kostur hefði verið Ásta Möller. Hún hefur að minnsta kosti þekkingu og áhuga á þessum málaflokki. Guðlaugur Þór hefur bara áhuga á völdum.

Það er skandall að Björn Bjarnason sé enn við völd í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Hvað þarf til að koma þessum manni frá? Fer hann ekki að komast á ellilaun? Enn meiri skandall er að hér sé yfirhöfuð kirkjumálaráðuneyti.

Geir er vinalegur en ekki traustsins verður.

Mér finnst það ekki byrja gæfulega fyrir landbúnaðarmálin hjá þessari ríkisstjórn. Fyrsta skrefið til að leggja niður íslenskan landbúnað felst í því að sameina landbúnaðarráðuneytið við sjávarútvegsráðuneytið.

Ég hefði viljað sjá fjármálaráðuneytið fara yfir til Samfylkingar.

Ágúst Ólafur er ekki metin að verðleikum innan síns flokks. Nú ætlar Ingibjörg bara að vera í útlöndum og láta Ágúst Ólaf sjá um skítverkin fyrir sig, samt verður hann bara varaformaður áfram.

Ég er ánægð að sjá Jóhönnu Sigurðardóttur í félagsmálaráðuneytinu aftur. Held að hún eigi eftir að gera góði hluti þar.

Ég veit ekki hvað mér að finnast um að búið sé að skipta iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu í tvennt. Vonandi standa þeir við að styðja við sprotafyrirtæki. Vonandi þýðir þetta ekki að áliðnaðurinn komi til með að verða svo viðamikill á næstu árum að sérstakan ráðherra þurfi til að halda utan um hann.

Þórunn verður vonandi betri í umhverfisráðuneytinu en Jónína og Siv.

Ég er ánægð með að fá Kristján L. Möller í samgönguráðuneytið. Enn ánægðari var ég með að sjá Alla oddvita og Óla langa taka Kristján á eintal í beinni útsendingu aðeins örfáum mínútum eftir að tilkynnt var að hann yrði samgöngumálaráðherra. Vonandi þýðir það að hans fyrsta verk verði að klára veginn til Vopnafjarðar og bora gat í gegnum Hellisheiði.

Það olli mér vonbrigðum að Sjálfstæðisflokkurinn yki ekki hlut kvenna í ríkisstjórn en það kom þó ekkert sérstaklega á óvart. Virðist vera merkilega erfitt að finna hæfar konur innan þess flokks. Mér finnst það alltaf jafn niðurlægjandi fyrir aumingja ungu sjálfstæðiskonurnar þegar þær koma fram og segjast bara vilja sjá hæfasta einstaklinginn fá embættið. Við ungar vinstri grænar viljum það líka, en af einhverjum ástæðum eru miklu fleiri hæfar konur innan okkar raða, tilviljun?

Í sveitinni og í sundi

Ég hef það bara gott hérna í sveitinni. Það er í ýmsu að snúast þessa dagana; taka á móti lömbum, gefa, brynna, hreinsa rennuna, krubba af, taka hildar, bera undir, merkja, marka, láta út, gefa pela, láta sjúga, venja undir og fleira og fleira. Það er gaman þegar vel gengur en stundum koma dagar þar sem allt gengur á afturfótunum og þá er ekki eins gaman.

Reynir afi skrapp frá Norðfirði í heimsókn til okkar í dag. Hann var að sækja sængina og koddann sem ég keypti fyrir hann um daginn og harðfisk sem mamma keypti fyrir hann (sá bakkfirski er víst sá allra besti). Það var gaman að sjá hann aðeins þó stutt væri. Við mamma skruppum með honum í sund. Ég synti 550 m sem er sennilega það mesta sem ég hef synt í einni ferð í Selárdalslaug síðan ég var þar í skólasundi. Reyndar felst sund í 12,5 m laug helst í því að spyrna sér í bakkann en ég er nokkuð góð í því 😉

Strympa

Ég er komin í bókaskáp heimilisins. Strympa eftir Peyo varð fyrir valinu að þessu sinni, teiknimyndasaga um Strumpanna. Bók sem Svenni bróðir fékk í afmælisgjöf frá Sunnu og Drífu 1986. Ég er nýbúin að vera á teiknimyndasögunámskeiði í vinnunni og er þess vegna dottin í það að lesa teiknimyndasögur í tíma og ótíma.

Strympa er mjög áhugaverð saga sem snerti ýmsa strengi hjá mér.
Fyrir þá sem ekki vita er Strympa búin til af Kjartani galdrakarli með það í huga að hefna sín grimmilega á Strumpunum. Hráefnið í Strympu er athyglisvert; í hana dugir ein hnefafylli af leir, perlur fyrir tennur, safírar fyrir augu, silki fyrir hár og dálítið af blárri málningu til að tryggja rétt litarhaft. En svo þarf að gæða hana lífi og þá verður uppskriftin öllu flóknari og skrautlegri. Uppskrift að lifandi kvenbrúðu; eina skeið af hégóma, væna sneið af undirferli, þrjú krókódílstár, einn hænuhaus, malaða höggormstungu, nokkur korn af ráðkænsku, nokkrir hnefar af skaphita, agnarögn af hvítum lygum, dálítið af sælkerahætti, eina skeið af óheilindum, eina fingurbjörg af hirðuleysi, hroka af hnífsoddi, ögn af öfundsýki, vænan skammt af tilfinningasemi, ögn af fákænsku, blandað saman við slægð, þynnt með miklu hugarflugi, jafnað með dálítilli þrjósku, eitt kerti, brunnið í báða enda.
Um leið og mér finnst þessi steríótýpa sem þarna er dregin upp fyndin er litli femínistinn innra með mér sármóðgaður fyrir hönd kvenþjóðarinnar.

Kjartani galdrakarli tekst að hefna sín á Strumpunum með Strympu. Hún reynist vera algerlega óþolandi. Hún spyr endalaust heimskulegra spurninga, er óþolandi upptekin af útlitinu og svo fær hún furðulegar hugmyndir eins að mála steinana bleika og halda dansiball. Strumparnir ákveða síðan að hefna sín á Strympu með því að pískra um það sín á milli að hún sé feit. Hún fer auðvitað alveg í mínus og lætur ekki sjá sig utandyra eftir það. Æðstistrumpur tekur að sér að flíkka aðeins uppá hana. Strympa var upphaflega með dökkt, frekar stutt og svolítið úfið hár en Æðstistrumpur gerir það ljóst og sítt og litar líka á henni augnhárin. Þá verða allir strumparnir ástfangnir af Strympu og eftir það finnast þeim heimskulegu spurningarnar og furðulegu hugmyndirnar bara krúttlegar og vilja allt fyrir hana gera. Þetta grunnhyggna lið!

Mæli annars með þessari færslu um Tinna hjá Magnúsi Teits. Ég er líka að vinna í því að lesa Tinna. Búin að lesa fjórar af 24.

Vopnfirðingur, Þorparinn og saga Vopnafjarðar

Þegar ég var ca. 13 ára var gefið út blað á Vopnafirði sem hét Vopnfirðingur. Mig minnir að Sigrún Odds og Hafþór Róberts (bæði kennararnir mínir til margra ára) hafi haft veg og vanda að því. Það var gaman að hafa blað sem fjallaði bara um það sem var að gerast á Vopnafirði. Þessi blöð eru eflaust til á mörgum vopnfirskum heimilum niðrí geymslu eða uppá háalofti Ég var að athuga hvort þetta blað væri einhversstaðar til skráð í Gegni en svo er ekki. Ætli þessi blöð séu ekki til á Bókasafni Vopnafjarðar og Þjóðdeild Landsbókasafnsins?

Núna er gefið út blað með svipuðu sniði á Vopnafirði. Blaðið heitir Þorparinn og er gefið út hálfsmánaðarlega. Fyrrnefndur Hafþór Róberts gefur blaðið út. Hann á mikið hrós skilið fyrir það. Ég er búin að renna í gegnum nokkur blöð núna og þetta er mjög gott og þarft blað. Ég er búin að lesa mér til um margt merkilegt sem er að gerast á Vopnafirði þessa dagana og mánuðina. Svo ég nefni dæmi er nýbúið að opna hérna nýtt gistiheimili þar sem einnig er boðið uppá sjóstangveiði og hákarlaveiði fyrir ferðamenn, Ungmennafélagið Einherji er búið að fá glæsilega félagsaðstöðu og fjölskyldan í Háteigi er búin að standa í gríðarlegi uppbyggingu á kúabúinu sínu. Ég prófaði líka að leita að Þorparanum á Gegni en fann ekkert. Það er afskaplega mikilvægt að varðveita þessi blöð svo þau verði aðgengileg fyrir almenning og fræðimenn, bæði núna og í framtíðinni.

Ég skrifaði færslu í maí í fyrra um nauðsyn þess að skrifa meira um Vopnafjörð. Heyrði einhversstaðar að það væri komið á dagskrá að skrifa sögu Vopnafjarðar, man bara ekki lengur hver var að tala um það. Nýlega er komin út Norðfjarðarsaga eftir Ögmund Helgason, ég er búin að lesa töluvert af henni og hugsaði reglulega um hvað það væri gaman ef það væri til sambærileg bók um Vopnafjörð. Það hefur nefnilega heilmargt merkilegt gerst á Vopnafirði og er enn að gerast.

Stjórnarandstaða og sveitin

Jey, við fáum að vera í stjórnarandstöðu með Framsókn. Bráðum verða Valgerður, Siv og Guðni bestu vinir mínir…og Eggert líka 😉

Ég er annars komin í fjörðinn fagra. Er búin að eyða deginum mestmegnis í fjárhúsunum. Voðalega gaman að sjá öll litlu sætu lömbin en mikið voðalega getur þetta stundum verið mikið bras.

Flugið hingað gekk vel, aldrei þessu vant. Engar tafir, engar bilaðar flugvélar og engin aukarúntur frá Þórshöfn. Eyddi biðinni á Akureyrarflugvelli í að lesa Bændablaðið. Að lesa bændablaðið er góð skemmtun. Sérstaklega smáauglýsingarnar.
Slóði óskast til kaups, þarf að vera staðsettur á Suðurlandi.
Ónýtt greiðslumark til sölu, einnig 12 ófengnar kvígur.
Já, bráðfyndið ef maður skilur ekki bændamál…og jafnvel líka þó maður skilji það.

Sumarið er tíminn…

Ég veit að ég á ennþá einhverja lesendur sem bíða í ofvæni eftir næstu færslu 😉

Ég er búin að plana ýmislegt skemmtilegt fyrir sumarið.

-Á fimmtudaginn, 17. maí fer ég til Vopnafjarðar. Tilgangur ferðarinnar er auðvitað fyrst og fremst að fara í sauðburð og hitta fjölskylduna. En ég stefni líka að því að ná að lesa svolítið, fara í sund og stuttar gönguferðir.

-Á hvítasunnudag flýg ég aftur til Reykjavíkur og um kvöldið förum við Óli á tónleika með Deep Purple og Uriah Heep. Hlakka mest til að heyra í Uriah Heep.

-Við stefnum að því að fagna þegar reykingabannið verður sett með því að fara út að borða:) og það er aldrei að vita nema maður skelli sér á skemmtistað (reyklausan að sjálfsögðu!) á eftir. Mikið hlakka ég til þegar hætt verður að spyrja reyk eða reyklaust um leið og maður kemur inn á veitingahús og ég hlakka enn meira til að geta farið út að skemmta mér án þess að fá reykingahausverk og að þurfa að þvo bæði mig og fötin mín eftirá.

Hjördís ætlar að halda uppá þrítugsafmælið sitt með pomp og prakt. Betra seint en aldrei 😉

-Sigrún Ásu vinnufélagi ætlar að halda uppá fimmtugsafmælið sitt

Rósa  útskrifast úr þjóðfræðinni og allt stefnir í gott partý 🙂

-Á 17. júní verður gott veður og eitthvað skemmtilegt brallað (ég er allavega búin að ákveða það)

-Við Óli stefnum að því að bregða okkur í Mývatnssveit í útilegu og á tónleika með Þingtak. Íris og Hrafnkell verða allavega á staðnum og e.t.v. fleiri meðlimir Nafnlausa saumaklúbbsins.

-Við Óli förum saman til Köben. Þar verð ég með Svenna bró, Hrönn og Frey frænda í viku en Óli fer til Århus í sumarskóla (en ég skrepp örugglega eitthvað í heimsókn til hans). Mamma kemur svo líka til Köben. Það fyndna er að við Óli fljúgum frá Keflavík, Svenni og co frá Egilsstöðum og mamma frá Akureyri. Þetta verður mjög gaman enda ekki svo oft sem við systkinin eyðum svona löngum tíma saman, hvað þá með mömmu með okkur, hefur líklega ekki gerst síðan jólin 1996 eða eitthvað. Ekki spillir fyrir að fá loks tækifæri til að kynnast Frey litla svolítið betur. Eftir Köben-dvölina förum við eitthvað ude på landet og heimsækjum Frú Jóhönnu og co og eitthvað fleira sniðugt. Svo er aldrei að vita nema maður kíki á Hróarskeldu. Þetta verður þá mín lengsta utanlandsferð til þess, heilir 12 dagar! Já, maður verður að venja sig við hægt og rólega.

-Svo er brúðkaup hjá Írisi og Hrafnkeli í Skíðadal (rétt hjá Dalvík). Mér skilst að þetta verði ekta sveitabrúðkaup þar sem dresskódið hljóðar uppá lopapeysu og gúmmískó. Ég hlakka mikið til og er búin að panta gott veður 🙂

-Í lok júlí verður bekkjarmót/fermingarbarnamót hjá mér á Vopnafirði. Verið að fagna því að 10 ár eru liðin síðan við fermdumst. Vonandi verður það skemmtilegt. Þessa sömu helgi er Vopnaskak á Vopnafirði, semsagt bæjarhátíð Vopnafjarðar og mikið um að vera.

-Um verslunarmannahelgina stefni ég að því að vera á Norðfirði á Neistaflugi. Það er þó ekki 100% ákveðið.

-Milli bekkjarmóts og verslunarmannahelgar ætla ég að vera á Vopnafirði og njóta sveitasælunnar.

Já, þetta er það sem er planað af sumrinu so far.

Ásamt þessu öllu ætla ég að vera dugleg í sundinu í sumar og er meira að segja búin að setja mér markmið í þeim efnum. Þori ekki að segja frá markmiðinu alveg strax, kannski þegar ég sé fram á að ná því 😉 Svo ætla ég líka að vera dugleg í fjallgöngum, er með nokkur fjöll í nágrenni Reykjavíkur í sigtinu eins og t.d. Keili, Helgafell, Akrafjall og Esjuna, hverjir vilja vera með?

Já, það stefnir í skemmtilegt sumar 🙂