Offramboð af framboðum

Það er gaman að fylgjast með þjóðmálaumræðunni núna. Framboðið af framboðum virðist óþrjótandi. Eftir nokkuð miklar vangaveltur og umræður um ný framboð til alþingiskosninga, sem eru reyndar ekki fyrr en á næsta ári, gerði Ólafur Ragnar Grímsson áhugamönnum um þjóðmálin þann stóra greiða að opna á pælingar um það hverjir muni bjóða sig fram til forseta á þessu ári með því að gefa það eins skýrt til kynna og honum er mögulegt (s.s. ekki mjög skýrt) að hann muni ekki gefa kost á sér í embættið áfram. 

Það sem er svo skemmtilegt við þessar umræður allar er hvað allir þeir sem nefndir eru koma manni mikið á óvart. Ég meina, Guðmundur Steingríms, Frjálslyndi flokkurinn og Lilja Mósedóttir? Hverjum hefði dottið í hug að þar færi á ferðinni fólk sem hefði áhuga á frama í pólitík? Þorvaldur Gylfason, Davíð Oddsson og Jón Baldvin, eru það í alvörunni einstaklingar sem líklegt er að telji sig hafa eitthvað fram að færa þjóðinni til heilla sem forsetar lýðveldisins? Öðruvísi mér áður brá.

Það besta við þessar bollalegginar allar er að það er ennþá svo langt í kosningarnar. Rúmlega hálft ár í forsetakosningar og að öllum líkindum eitt og hálft ár í þingkosningar. Það er ekki nokkur möguleiki á því að maður geti fengið nóg af framboðspælingum. Eftirspurnin eftir þessu fólki er alltof mikil til þess.

Greinin birtist fyrst á Hamragrill.is