Í barnalæsis og bókmenntaáfanga sem ég er í var minnst á að Silja Aðalsteinnsdóttir telur víst betra að barnabækur hafi meiningar og séu jafnvel pólitískar. Sem dæmi um slíka bók var nefnt stórvirkið um Snorra Sel. Ég veit ekki hvort það er til dæmis um barnslega einfeldni mína á yngri árum eða stíflað bóklæsisnef í seinni tíð en mér hafði bara aldrei dottið í hug að sagan um Snorra væri eitthvað annað en saga um sel sem sigrast á erfiðum aðstæðum. Í mesta lagi væri í bókinni verið að sýna börnum að hægt sé að sigrast á erfiðum aðstæðum. En nei.
Höfundur Snorra, Frithjof Sælen, var að rita allegoríu um hernám nasista í Noregi. Selurinn Snorri er norska þjóðin og háhyrningurinn Glefsir og ísbjörninn Voði eru nasistar. Bókin hafði upphaflega undirtitilinn „Dæmisaga í litum fyrir börn og fullorðna“ og fljótlega eftir að hún kom út bönnuðu nasistar hana hreinlega. Hér er smá pistill um bókina og sögu hennar.
Ég er svolítið búinn að vera að velta þessu fyrir mér með pólitískan undirtón í barnabókmenntum og hvort og hvernig hann skilar sér. Ég hef heyrt frá nokkrum sem lásu (eða heyrðu) söguna um Snorra á yngri árum en engin kannast við að hafa tengt hana við baráttuna gegn nasisma. Allir eru þó á því að sagan sé góð og málstaðurinn líka. En hvað með málstað sem ekki allir eru jafn hrifnir af?
Í Dýrunum í Hálsaskógi, sem hefur fylgt íslenskum börnum í áratugi, er undirtónninn sósíalismi/jafnaðarstefna. Hefur það haft einhver áhrif á börn í gegnum tíðina? Það held ég ekki. Sá boðskapur sem flestir taka frá félögunum í Hálsaskógi er fyrst og fremst sá að öll dýrin í skóginum eigi að vera vinir.
Virkar pólitískur áróður í barnabókum? Ég á voðalega erfitt með að ímynda mér það. Fyrir það fyrsta held ég að það sé ekkert líklegt að börn á leikskólaaldri (sem ég miða fyrst og fremst við í þessum pælingum vegna eigin náms og starfs) tengi yfirhöfuð það sem fram er fært við einhverja pólitík. Eða bara að þau hefðu yfirhöfuð áhuga á því jafnvel ef svo væri.
Það er auðvitað sjálfsagt og jafnvel æskilegt að barnabókmenntir hafi meiningar og reyni að koma til skila góðum gildum. En það er hætt við að flóknari pólitískar meiningar fari einfaldlega fyrir ofan garð og neðan hjá börnum, kannski sem betur fer því börn eiga finnst mér rétt á því að fá að njóta þess að vera börn en ekki pólitískar verur.
Sögur eins og Selurinn Snorri og Dýrin í Hálsaskógi lifa áfram af því að þær eru skemmtilegar og vel skrifaðar. Og með fallegan boðskap, jafnvel þó að hann sé ekki alltaf sá sem höfundarnir ætluðu í upphafi.