… gerir grein fyrir atkvæði sínu

Það tíðkast á Alþingi að menn geti gert grein fyrir atkvæði sínu við atkvæðagreiðslur. Almenningur hefur víst ekki kost á því við almennar atkvæðagreiðslur þannig að ég ætla að nota þetta blogg til þess í staðinn.

Ég tók semsagt þátt í minni fyrstu þjóðaratkvæðagreiðslu áðan. Alveg óháð því hvaða skoðun ég hef á málinu sem um ræðir kom aldrei neitt annað til greina en að taka þátt. Fyrir því eru tvær ástæður. Ég er svona frekar hlynntur því en ekki að við, almenningur, eigum kost á því að fá að segja hug okkar með formlegum hætti í stærri málum. Þess vegna kom aldrei neitt annað til greina en að taka þátt í fyrstu þjóðaratkvæðagreiðslunni frá lýðveldisstofnun. Hin ástæðan er sú mér var, líkt og mörgum öðrum, innprentað það frá unga aldri að þegar kosningar stæðu fyrir höndum þá mætti maður á kjörstað og kysi. Nóg er nú hamrað á því í sögu og félagsfræðikennslu í grunn- og framhaldsskólum hér á landi að kosningaþátttaka sé hér almennt betri en gengur og gerist í öðrum löndum. Svo sterk er þessi hefð í mörgum að kosningaþátttaka í seinasta skiptið sem kosið var um forseta hér á landi var nokkuð góð, þrátt fyrir að úrslitin væru ljós löngu áður en kosið væri.

Ég sagði nei. Ekki af því að ég haldi að þessi lög sem kosið er um séu úrelt, eins og ríkisstjórnin og spunameistarar á hennar vegum vilja telja okkur trú um. Ef að svo væri, og höfum í huga að það er rúmlega vika síðan þessi kór hóf upp sína rödd, að betri samningur væri í hendi þá er það einfaldlega helber bilun að meirihlutinn á Alþingi hafi ekki afnumið þessi lög og sparað þjóðinni þær 200 milljónir sem sagt er að atkvæðagreiðslan kosti. Auðvitað skiptir þessi kosning máli. Við erum að senda þau skilaboð með því að hafna lögunum að við munum ekki sætta okkur við samning á þeim nótum sem lögin byggjast á.

Það er svo skrýtið að forystumenn stjórnarflokkanna ætla ekki að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni (þeirri fyrstu frá lýðveldisstofnun munið þið). Þetta verður ennþá skrýtnara þegar haft er í huga að eitt af fyrstu málunum sem núverandi meirihluti lagði fyrir Alþingi voru lög um þjóðaratkvæðagreiðslur. Gott ef að fyrsti flutningsmaðurinn var ekki sjálf Jóhanna Sigurðardóttir. Sem ætlar núna að sitja heima, sem segir kannski ekki neitt um hvaða prinsippskoðanir hún hefur á þjóðaratkvæðagreiðslum en virkar samt alveg ótrúlega óklókt og verður örugglega ekki til að auðvelda framgang laga um þjóðarakvæðagreiðslur í framtíðinni.

Einhvern tíma hefðu orðið læti ef að formenn stjórnmálaflokka reyndu að hafa áhrif á kosningaþátttöku með þeim þætti sem Jóhann og Steingrímur Jóhann Sigfússon hafa gert seinustu daga. Í forsetakosningunum seinustu, sem ég minntist á hér að ofan, bar svo við að ákveðið var að telja auð atkvæði sérstaklega í fyrsta skiptið. Það var reyndar góð ástæða fyrir því vegna þess að fjöldi þeirra var það eina spennandi við kosningarnar. Morgunblaðið setti þessi tíðindi á forsíðu daginn sem kosið var. Ólafur Ragnar túlkaði þetta sem svo að einhver áhrifaöfl í þjóðfélaginu ásamt elsta og stærsta blaðinu hefðu beitt sér með því að reyna að fá fólk til að skila auðu. Bæði Össur Skarphéðinnson (sem var þá formaður Samfylkingar) og Steingrímur J. tóku undir þennan málflutning og fannst þessi vinnubrögð fyrir neðan flest allar hellur.

Þessum sama Steingrími finnst hins vegar sjálfsagt að ráðherrar og þingmenn reyni að hafa áhrif á fyrstu þjóðaratkvæðagreiðslu lýðveldisins með því að tikynna það sérstaklega að þeir ætli sér ekki að mæta á kjörstað.

Og flestum virðist finnast það bara í fínu lagi.