Að hallmæla bankastarfsmanni

Bubbi kallinn Morhens skrifaði pistil á Pressuna í gær. Að einhverju leyti er þessi pistill hans skrifaður til að skerpa enn frekar á öðrum pistli sem hann skrifaði um daginn þar sem hann hélt því fram að Jón Ásgeir Jóhannesson bæri ekki ábyrgð á hruninu heldur miklu frekar Davíð Oddsson og menn honum handgengnir. Bubbi notar einnig tækifærið til að segja okkur að hann sé sko ekki hræddur við Davíð eða skósveina hans.

Látum nú liggja á milli hluta hvernig maður sem byggði upp viðskiptaveldi sem skuldar upphæðir sem láta framkvæmdirnar við Kárahnjúka líta út eins og matarkostnað hjá einyrkjafyrirtæki anorexíusjúklings hafði engin áhrif á bankahrunið. Látum liggja á milli hluta að það er alltaf hálf kjánalegt að sjá fullorðna karlmenn gera lítið úr typpastærð annara. Við skulum meira að segja ekki velta okkur upp úr því að Bubba finnst að Samkeppnisstofnun eigi ekki að skipta sér af því hvort að skipta megi eða eigi upp fyrirtækjablokkum.

Það sem mér finnst magnaðast í þessum pistli hans Bubba, og það sem varð nú kveikjan að mínu eigin væli, er það hvernig Bubbi byrjar pistilinn.

„Ef þú hallmælir ekki bankastarfsmanni í það minnsta einu sinni í viku, þá ertu ekki með okkur hinum í liði. “

Hver eruð þið og hver skipti í lið? Er það einmitt það sem okkur vantar í dag, lið sem uppfylla þarf sérstakar haturskröfur til að tilheyra?

Hitt er kannski ennþá hallærislegra. Hvað í ósköpunum hafa bankastarfsmenn gert mér? Og hvar á ég að byrja? Á ég að fara og rífast svolítið við gjaldkera? Á ég að pönkast aðeins á þjónustufulltrúanum mínum? Útibússtjóranum?

Það er rosalega algengt að fólk hrauni yfir þá sem vinna eða hafa unnið í bönkum án þess að geta á nokkurn hátt útskýrt almennilega af hverju. Bubbi naglfestir sig kyrfilega í þann hóp með þessum pistli sínum. Og kannski er það fínt, við erum þá allavega ekki að pæla í því hvað HANN gerði árin fyrir hrunið.