„Trúleysi ógnar mannlegu samfélagi, viðskiptum og stjórnmálum; ótryggð og ótrú ógnar uppeldi barna okkar, sundrar heimilum og fjölskyldum. Valið stendur milli trúar og trúleysis á vettvangi hversdagsins, sem og viðskipta og stjórnmála. Ég er ekki í vafa um að flestir myndu að athuguðu máli velja trúna. Og viðurkenna að þegar allt kemur til alls sé einfaldlega ekkert vit í því að eignast allan heiminn og fyrirgjöra sálu sinni. Eða hvað?“ – Karl Sigurbjörnsson, biskup þjóðkirkjunnar, 1. janúar 2003.
Kristinn Theodórsson er skemmtilegur bloggari. Hann er trúlaus og er eftir því sem ég best veit meðlimur í Vantrú. Hann notaði tækifærið á Uppstigningardag og rifjaði upp nokkur fleyg ummæli Karls Sigurbjörnssonar um trúleysi/trúleysingja frá liðnum árum. Þar á meðal þau sem eru hér fyrir ofan. Í nýjasta blogginu sínu kemur Kristinn svo eilítið inn á lög um guðlast á Íslandi.
Þetta tvennt tengdist svo á einhvern hátt saman í hausnum á mér og eftirfarandi hugleiðingar urðu til.
Fyrir 13 árum síðan varð uppi fótur og fit vegna þess að Spaugstofumenn leyfðu sér að grínast örlítið með biblíusögur laugardaginn fyrir páska. Aðallega voru það tvö atriði sem fóru fyrir brjóstið á strangtrúuðum, útúrsnúningur á seinustu kvöldmáltíðinni og atriði þar sem Jesú hjálpar blindum manni með áskrift að sjónvarpstöðinni Sýn. Þetta fannst kirkjunnar mönnum svo ofboðslegt að þáverandi biskup, Ólafur Skúlason, lét Ríkissaksóknara vita af glæpnum og hann fól Rannsóknarlögreglu ríkisins að rannsaka málið. Spaugstofumenn voru þá kallaðir til yfirheyrslu. Einnig sendi biskup formlegt kvörtunarbréf til RÚV sem gerði þó ekkert með það. Á endanum var ákveðið að ákæra ekki, tjáningarfrelsi á Íslandi til heilla.
Þjóðkirkjunni íslensku finnst s.s. ekki alveg í lagi (eða fannst það í það minnsta á þessum tíma) að menn grínist aðeins með helgisögurnar. Það er algjört nónó og engu skiptir þó að grínið sé góðlátlegt og saklaust. Það er enda hálfgert tabú að grínast með eða rökræða trúarskoðanir fólks. Það er nóg að skoða umræðurnar sem skapast á vef Vantrúar til að sjá dæmi um það.
En þetta gildir greinilega ekki um trúleysingja. Hvað eftir annað koma leiðindaskot og dylgjur í garð þeirra frá bæði biskupi og prestum. Og menn hika ekki við að nota tækifærið í nýársávörpum og páskapredikunum til að reyna að sannfæra fólk um að trúleysi sé ömurlegt ástand að vera í og leiði ekkert gott af sér. Þetta er ekki hugsað sem grín og hvað þá góðlátlegt. Saklaust er þetta auk þess ekki.
Samt sem áður hefur aldrei komið til tals að rannsaka ummæli biskups eða presta og ég veit ekki til þess að trúleysingjar hafi formlega farið fram á slíkt. Enda væri það fáránlegt. Það er miklu betra að benda á hversu siðferðislega röng þessu ummæli flest eru og takast á við trúaða í rökræðum (eins langt og það nú nær) en að hringja kjökrandi í vælubílinn.