Björn Valur Gíslason þingmaður VG er víst að íhuga það að hætta á þingi. Það er í sjálfu sér ekkert nema gott um það að segja. Hins vegar blöskraði mér þegar ég las þessi orð þingmannsins:
Það hefur ekki verið tekin ákvörðun um það hvort ég lengi fríið eða snúi til starfa aftur. Þetta var fyrirvari sem ég gerði í þessu nýja starfi eins og margir gera til að athuga hvernig mönnum líkar vinnan.
Vissulega er það oft þannig að fyrstu mánuðirnir í nýju starfi eru notaðir til þess að fá reynslu á starfsmanninn og að hann fái reynslu af vinnustaðnum. Það sem Björn Valur virðist hins vegar ekki átta sig á er að hann gekk ekki í gegnum neitt venjulegt umsóknarferli til þess að fá vinnuna sem hann er í núna. Hann sótti umboð sitt til kjósenda. Þeir kusu hann til þess að sitja á þingi á þessu kjörtímabili. Man einhver til þess að Björn Valur hafi lýst því yfir í kosningabaráttunni að hann ætlaði nú bara svona að sjá til hvernig þetta djobb væri en hætta svo bara ef hann fílaði sig ekki á nýja staðnum? Það fór nefnilega eitthvað framhjá mér ef svo var.
Nú er það ekki svo að ég sé á því að menn sem kosnir eru á þing megi ekki segja af sér. En smá virðing fyrir kjósendum væri vel þegin, þó að það sé kannski fullreynt.
Það lítur ekki út fyrir að þessir hjólastandar við Perluna séu í mikilli notkun
Í vikunni kvöddu flest börnin sem hafa verið í hópnum mínum á leikskólanum. Það er hálf skrýtið að horfa á eftir þeim en það er auðvitað komið að næsta stigi á þeirra skólagöngu. Ég fékk þessi fallegu blóm frá einum litlum vini mínum í kveðjugjöf.
Birkir vinur minn býr í Eyjum. Hann kíkti aðeins upp á land í vikunni og fékk ógurlega þörf til þess að njóta einhvers sem ekki fæst í Eyjum. Því var að sjálfsögðu reddað snarlega.
Skellti mér í útilegu um helgina með vinnufélögum. Það fóru fleiri kílómetrar af garni um helgina, enda setið lengi við.