Undanfarið hefur aðventistinn Mofi farið mikinn um þá tilgátu sína að þeir sem ekki trúa sköpunarsögu biblíunnar lifi í sjálfsblekkingu telji þeir einhvern tilgang vera með lífi sínu. Eins og venjulega þá er um að ræða misskilning og oftúlkanir hjá Mofa og ég hef aðeins verið að velta því fyrir mér hver uppruni þessa rugls er hjá honum. Þetta er svona það helsta sem mér hefur dottið í hug:
Við erum með tvenns konar merkingu á orðinu „tilgangur“ þegar það tengist lífinu.
Annars vegar er um að ræða að einhver æðri tilgangur sé með veru okkar á jörðinni. Þessar hugmyndir koma iðulega frá trúmönnum. Þá er það hlutverk mannsins (sjaldnast eru menn eitthvað að vesenast með „óæðri“ lífverur í þessum pælingum) að uppfylla eitthvað ákveðið hlutverk áður en kemur að einhverskonar skiladögum.
Hins vegar er það hver tilgangur hvers einstaklings er á lífsgöngu hans. Þær hugmyndir eru ekki jafn tengdar trúarbrögðum enda finna menn sér tilgang með lífinu útfrá eigin sannfæringu og skoðunum. Í sumum tilfellum er þetta vissulega trúartengt og fólk reynir að lifa sínu lífi eftir ákveðinni forskrift í von um að enda á góðum stað. Öðrum nægir að láta sinn tilgang vera að njóta frekar lífsins lífsins vegna og reyna sitt besta að gera eigin tilveru og annara ánægjulega og tryggja að tilvera þeirra sem á eftir komi verði einnig ánægjuleg.
Í hausnum á Mofa hafa þessar tvær merkingar hrærst saman eins og gerist svo oft hjá honum og hann getur ekki aðskilið þetta tvennt. Og í hinum háheilaga hroka trúboðanns skeiðar Mofi fram á völlinn og tilkynnir þeim sem taka frekar mark á vísindum og þeirri þekkingu sem maðurinn býr yfir árið 2010 en bókstafstúlkunum á gömlum trúarritum að þeirra heimsmynd bjóði einfaldlega ekki upp á að líf þeirra hafi tilgang.
Og takið eftir að Mofi er ekki bara að tala um óalandi og óferjandi trúleysingja eins og undirritaðan. Hann er að tala um alla sem taka Þróunarkenninguna, Landrekskenninguna, kenninguna um Mikla Hvell og í raun allar kenningar sem vísindin hafa fram að færa fram yfir sköpunarsögur.
Mofi á sjálfsagt eftir að neita þessu þar sem hann telur sig geta valið úr þær vísindakenningar sem henta trúarskoðunum sínum og neitað hinum. Það hins vegar gengur ekki upp eins og ætti að vera öllum sem hafa sæmilegan vitsmunaþroska ljóst.