DV skreytir sig með stolnum fjöðrum

Íþróttaopna DV í dag er ansi merkileg. Þar er samantekt um „fýlupúka“ úr enska boltanum sem hafa þvingað fram sölu á sér til annara liða. Í inngangi að samantektinni er gerð grein fyrir því að hugmyndin hafi kviknað vegna krafna Charles N’Zogbia og Hatem Ben Arfa um að fá að verða seldir og leiðinda í þeim vegna þess. Mér fannst ég nú eitthvað kannast við þetta allt saman sem er kannski ekkert skrýtið því að ég var nýbúinn að skoða þetta hérna.

Nú er svosem ekkert að því að íslenskir fjölmiðlar taki efni frá öðrum miðlum og þýði og birti fyrir lesendur sína. En í þessu tilfelli er því haldið fram að DV sjálft hafi gert þessa samantekt og manni á greinilega að finnast þeir rosalega sniðugir og duglegir. Greinin er ekki merkt neinum blaðamanni og því algjörlega á ábyrgð ritstjórnar DV. Sem heldur áfram að eiga virkilega góða viku.