Hvað eiga þessir tveir hópar sem ég nefni í fyrirsögninni sameiginlegt? Eitt af því sem nú er hægt að nefna er að í báðum hópum getum við núna fundið dæmi um einstaklinga sem nota trú sína til að réttlæta hegðun og skoðanir sem almennt þykja ekki alveg í lagi í okkar samfélagi.
Þess vegna finnst mér núna svolítið fyndið að sjá marga hörðustu trúmenn bloggheima verja þessa framkomu Jenis þingmanns. Hann sé bara samkvæmur sinni trú og það eigi sko alls ekki að ráðast á hann fyrir það heldur sé þetta einmitt eitthvað sem eigi skilið hrós. Sjá dæmi:
Theódór Norðkvist. Snorri ‘Bethel’ Óskarsson. Óskar Sigurðsson.
Þeir eru fleiri sem hafa varið Jenis á þessum forsendum, og eiga flestir það sameiginlegt með ofangreindum að teljast í trúhneigðari kanntinum. En sami hópur er einmitt oftar en ekki fyrstur á svæðið til að benda á alls konar hluti sem múslimar fremja í nafni sinnar trúar og þeir vilja meina að séu af hinu slæma.
En á að skipta einhverju máli hvort að menn beiti fyrir sig Kóraninum eða Biblíunni þegar þeir reyna að réttlæta eigin fordóma? Er nokkuð einhver smá hræsni þarna á ferðinni?