Skrýtin skilaboð um jafnrétti frá Menntamálaráðuneyti

Inn um lúguna á leikskólanum þar sem ég er í vettvangsnámi þessar vikurnar datt nýtt rit frá Menntamálaráðuneytinu um jafnréttismál. Kynungabók heitir ritið og er því beint til ungs fólks. Þetta er flottur bæklingur í A4 broti myndskreyttur af Hugleiki Dagssyni og um umbrot og hönnun sá Kári Emil Helgason. Um tilefni og tilgang útgáfunnar má sjá þetta á heimasíðu ráðuneytisins:

Markmið með útgáfu Kynungabókar eru að veita raunsæja mynd af stöðu kynjanna í samfélaginu og vekja ungt fólk til umhugsunar um hvernig mismunandi mótun kynjanna út frá menningu, umhverfi og tíma hefur áhrif á líf ungs fólks. Jafnframt er lagt upp úr því að ritið höfði til ungmenna og að þau geri sér grein fyrir að jafnréttismál varða bæði kynin og eru öllum til hagsbóta. #

Feitletrunin er mín. Það er nefnilega svo að í þessum annars fína bæklingi eiga bara tveir karlmenn beinan hlut, þeir Hugleikur og Kári. Allt efni hans er samið af konum. Örugglega mjög hæfum konum, ég efast ekki um það. Og miðað við það sem ég hef skoðað af bæklingnum þá er hann alls ekki illa unninn.

En þetta vekur athygli. Sérstaklega nú á tímum ríkisstjórnar sem ætlar sér að rétta hlut kynjanna með beinum aðgerðum (líkt og kynjakvóta á fyrirtækjastjórnir). Það hefur verið eftir því tekið að þegar kemur að því að skipa ráð og nefndir, sama hvort um er að ræða eitthvað sem tengist jafnréttismálum eða ekki, þá hafa kynjahlutföll alls ekki alltaf verið höfð til hliðsjónar. Eini munurinn hefur verið sá að í jafnréttismálum eru kynjahlutföllinn yfirleitt öfug.

Getur í alvörunni verið að engin karlmaður hafi fengist til að koma að því að semja efni bæklingsins eða hugleiddi engin að þarna er enn verið að viðhalda þeirri leiðu mýtu að jafnréttismál séu eitthvað frekar á könnu kvenna en karla?