Herra Hatrammur og Séra Umburðarlynd

Hann er ólíkur boðskapurinn sem kom fram í predikunum tveggja prest á Sunnudaginn. Ja, eða reyndar er Karl Sigurbjörnsson meira en prestur, hann er biskup íslensku ríkiskirkjunnar og sem slíkur einn af æðstu og launahæstu embættismönnum þjóðarinnar. Sigríður Guðmarsdóttir er hins vegar ein af frjálsyndari prestum Þjóðkirkjunnar, hvað sem það svosem þýðir.

Karl er í vígaham. Hingað og ekki lengra segir hann. Muni tillögur Mannréttindaráðs Reykjavíkur um aðskilnað menntunar og trúboðs ná fram að ganga þá muni það stuðla að fáfræði, fordómum og andlegri örbigð hvorki meira né minna. Mannréttindaráð fær skammir frá Herra karli fyrir m.a. að hafa ekki haft nógu mikið samráð við Þjóðkirkjunar, og það þrátt fyrir að Karl hljóti að vita að tillögurnar byggja m.a. á niðurstöðum starfshóps sem Kirkjan átti fulltrúa í. Ummæli Karls í garð sálfræðinga og annara sem hafa sérhæft sig í áfalla- og sorgarviðbrögðum eru svo kostulega klaufaleg (því að ekki trúum við því að illgirni ráði ferðinni). Hann kvartar yfir því að lítið sé gert úr menntun og reynslu presta í þessum málum með því að skólar eigi frekar að leita til „svokallaðs“ fagfólks. Svokallaðs segir maðurinn. Þetta svokallað fagfólk hefur meira og minna allt meiri menntun og sérhæfingu og prestar í þessum málaflokki.

Séra Sigríður er hins vegar á friðarskóm. Hún birtist sem ímynd þess umburðarlyndis og „samtals“ (svo ég grípi til prestlegs orðalags) sem kirkjan segist standa fyrir. Hún er ekki sátt við allt sem Mannréttindaráð setur fram, eðlilega, en í stað þess að ganga fram með offorsi, útúrsnúningum og hatrömmum málflutningi í garð einhverra andstæðinga leggur hún fram innlegg í umræðu. Umræðu sem hefði átt að hefjast strax þegar tillögur Mannréttindaráðs voru lagðar fram.

En því miður eru prestar og aðrir kirkjuleiðtogar fremstir í flokki þeirra sem ekki vilja neinar umræður um þessi mál. Þess í stað tala þeir um öfgar og fara með rangfærslur til að afvegaleiða umræðuna áður en hún fer einu sinni almennilega af stað.

Leave a comment