Dómurinn yfir kynferðisglæpamönnunum sem misþyrmdu 13 ára barni um borð í skipi hefur vakið talsverða athygli og hneykslun. Skiljanlega. Það sem átti sér stað um borð í skipinu var hræðilegt. Maður getur ekki annað en fundið til með barninu sem var fast um borð í skipi með kvölurum sínum í fleiri daga. Það eru aðstæður sem maður óskar engum.
Eitt af því sem mennirnir gerðu var að pota í endaþarm drengsins með fingrum og öðrum hlutum. Í allavega eitt skiptið fór fingur inn í endaþarm drengsins skv. atvikalýsingu.
Nú vill svo til að fyrr á árinu féll dómur í héraðsdómi Reykjavíkur þar sem maður var dæmdur fyrir að stinga tveimur fingrum í endaþarm konu þar sem hún var að pissa á Austurvelli.
Skipverjarnir fengu skilorðsbundna dóma í 45 daga (tveir þeirra), 60 daga og þrjá mánuði. Maðurinn á Austurvelli fékk 18 mánaða óskilorðsbundna refsingu.
Vandamálið er það að skipverjarnir voru ákærðir fyrir að beita kynferðislegri áreitni með lostugu athæfi sem særði blygðunarkennd en sá á Austurvelli var ákærður fyrir nauðgun. Samt er erfitt að sjá að brot skipverjana hafi verið annars eðlis, hvað þá vægari. Þeir voru auk þess að brjóta gegn barni. Saksóknarinn í því máli skuldar útskýringar á því hvað lá að baki ákvörðun um hvað ákært skyldi fyrir.
————————
Yfirlýsing umboðsmanns barna frá því í gær þar sem hann fagnar niðurstöðu dómsins er annað atriði sem kallar á útskýringar. Satt best að segja finnst mér að Margrét María þurfi hreinlega að huga að stöðu sinni eftir þessa yfirlýsingu.