Til að byrja með langar mig að segja að ég held að sjávarútvegsfrumvörpin tvö sem liggja fyrir séu ekki af hinu góða. Ég held að þau hefði þurft að vinna miklu betur og trúi því ekki að allir þeir fagaðilar, sama hvort um er að ræða aðila úr sjávarútvegsgeiranum, hagfræði eða aðra, sem hafa gefið frumvörpunum neikvæðar umsagnir séu í einhverri herferð annað hvort gegn ríkisstjórninni eða fyrir útgerðarmenn.
En ég nenni eiginlega ekkert að bæta í það orðaflóð sem hefur fallið um þessi frumvörp heldur langar mig frekar að benda á tvo hluti sem fara í taugarnar á mér í umræðunni.
1) Sú hugmynd að sjómenn séu handbendi vinnuveitenda sinna. Það má vel vera að til séu sjómenn sem taka þátt í mótmælaaðgerðum útgerðarmanna með óbragð í munni. Ég held hins vegar að fólk eigi að fara varlega í því að fullyrða að þannig sé almennt farið og að sjómenn séu þar með svo buguð stétt að þeir geti ekki staðið í lappirnar gagnvart yfirmönnum sínum. Ég veit að þeir sjómenn sem ég þekki til eru óánægðir með frumvörpin og að þeir tóku þátt í mótmælunum í dag af fúsum og frjálsum vilja. Óánægjan virðist reyndar líka vera til staðar hjá því fiskvinnslufólki sem ég þekki.
2) Hugmyndin að útgerðarmenn séu alveg einstaklega góðir í rekstri sinna fyrirtækja. Ég hef séð marga skoðanabræður mína um frumvörpin halda þessu fram. Og svo er það annað hvort sagt beint út eða þá gefið í skyn að útgerðarmenn séu hálfgerðir píslarvottar. Og ég get ekki tekið undir þetta.
Kvótakerfið sem slíkt hefur jú vissulega auðveldað mönnum hagræðingu í rekstri en það hvernig menn hafa svo nýtt sér arðinn sem hagræðingin hefur skapað eiginlega kæfir í fæðingu þá hugmynd að fyrirtækin sjálf séu vel rekin. Flest virðast þau vera veðsett upp í topp á sama tíma og eigendurnir hafa tekið úr þeim arð sem nýttur hefur verið í eitthvað allt annað en sjávarútveginn.
Af hverju er t.d. Ísfélagið í Vestmannaeyjum að velta því fyrir sér að selja eða leigja út nýju Heimaeyna, eitt glæsilegasta skip flotans, á sama tíma og eigandi Ísfélagsins getur séð af fleiri hundruð milljónum á ári í tap á rekstri fjölmiðils? Væri ekki nær að nýta þá fjármuni í að halda þessu glæsilega skipi í þjónustu fyrirtækisins?
Ef við höldum okkur bara við Vestmannaeyjar þá höfum við þar annað dæmi um útgerðarmann sem notaði arðinn úr sínu fyrirtæki til þess að kaupa sér bílaumboð og pítsustaði.
En eins og ég segi, ég held að þessi frumvörp séu ekki af hinu góða. En við skulum ekki láta eins og að það sé allt í himnalagi með hvernig sjávarútvegsfyrirtæki hafi verið rekin á seinustu árum. Ef um væri að ræða fyrirtæki í öðrum atvinnugreinum þá hefði þeim einfaldlega fyrir löngu verið leyft að fara á hausinn.