Meira um Twitter (UTN)

Rakst hér á aðra síðu sem útskýrir Twitter og kynnir helstu viðbætur og möguleika sem hægt er að bæta við til að gera notkunina betri og skilvirkari.  Hvet þá lesendur mína sem eru með mér í Upplýsingartækninni að kynna sér þetta:)

Einhverjum fannst við nú þurfa að skrá okkur í og vinna í nógu mörgum mismunandi fyrirbærum þó að þetta bættist nú ekki við. Það er kannski eitthvað til í því en ég held að við sem erum að mennta okkur sem kennara verðum að hafa tvennt í huga: a) Þessi forrit og netfyrirbæri eru í dag og verða enn frekar í náinni framtíð stór hluti af daglegu lífi nemenda okkar. Kannski í minna mæli eftir því yngri sem þeir eru (ég sé nú kannski ekki alveg fyrir mér að verða með mörg börn úr leikskólahópunum mínum sem vini á Facebook eða fylgjendur á Twitter) en við getum alveg gert ráð fyrir því að þeir séu að einhverju leyti meðvitaðir um þetta. Í hópnum mínum á leikskólanum eru fimm ára gömul börn. Þau vita mörg hver hvað Facebook er þó að þau séu ekki skráð þar inn. Sum fá meira að segja að spila leiki í gegnum FB! b) Við sem kennarar getum án nokkurs vafa nýtt okkur þessi tæki til margra hluta. Ég hef nú þegar minnst á að hægt sé að nýta þau sem samskiptavettvang og til þess að benda kollegum á fróðlegt efni sem við sjáum á netinu. Annar hlutur sem hægt er að nefna er að bekkir í grunnskólum og hópar á leikskólum geta stofnað grúppur á Facebook sem foreldrar einir hefðu aðgang að. Þar væri bæði hægt að setja inn upplýsingar um hitt og þetta úr daglega starfinu auk þess sem þar væri kominn samskiptavettvangur fyrir foreldra.

Mér finnst allavega mjög gaman að hugsa um þessa hluti og reyna að sjá hvernig hægt er að nýta sér þá möguleika sem netið býður upp á í dag í kennarastarfinu:)