Foreldrar á Facebook (UTN)

Áfram rúlla bloggin vegna Upplýsingatækniáfangans.

Ég hef svolítið verið að velta fyrir mér þessu með leikskólakennara (og jú grunnskólakennara) og foreldra varðandi Facebook. Ég nefndi hér í seinasta UTN bloggi þá hugmynd að hópar/deildir á leikskólum og bekkir í grunnskólum geti verið með lokaða hópa á Facebook en hvað með einka-aðganga kennara? Á maður sem kennari að samþykkja foreldra barna í umsjá manns sem vini á Facebook? Er maður þá ef til vill að fórna einhverju af frelsi sínu til vitleysisgangs utan vinnutíma?

Ég sjálfur er vinur nokkurra foreldra sem eiga börn á mínum vinnustað en í nær öllum tilfellum er þar um að ræða fólk sem ég þekkti fyrir og ef ekki það þá fólk sem ég treysti alveg til að gera greinarmun á vitleysingnum Agli Óskarssyni sem setur inn ótrúlega misgáfulega statusa og er stundum taggaður á djammmyndum og leikskólastarfsmanninum Agli Óskarssyni. En það er til fólk sem á erfitt með að gera greinarmun á kennurum innan og utan vinnustaðar.

Ég man eftir sögu sem kennari í einum áfanga sagði okkur í fyrra. Hún var (eða er jafnvel ennþá, er ekki viss) deildarstjóri á leikskóla. Einn daginn kemur foreldri til hennar svona frekar ósátt. Fjölskyldan bjó í sama húsi og starfsmaður á leikskólanum og um morgunin höfðu þau (foreldrið og barnið) séð starfsmanninn kyssa sambýling sinn innilega í kveðjuskyni (er ekki að tala um eitthvað öfgakennt, bara innilegur koss) og fannst nú ekki alveg í lagi að starfsmaðurinn gerði svona fyrir framan barnið sitt.

Deildarstjórinn útskýrði að kennarar eigi sitt einkalíf í friði og að svo lengi sem hegðun þeirra er ekki gegn lögum eða þeim mun ósiðlegri hefur það engin áhrif á þá í starfi. Auk þess sem að þetta er nú börnum varla skaðlegt að sjá fólk kveðjast innilega. Foreldrið tók þessum rökum og viðurkenndi að auðvitað væri þetta nú allt í lagi. En þetta er svona dæmi um að sumir gera kröfur til okkar sem störfum með börnum sem ganga lengra en bara það að standa okkur vel í vinnunni. Og það sem ég er aðallega að hugsa er hvort Facebook geti skapað einhver vandræði með það.

Hvað segja félagar mínir í UTN? Og aðrir?

6 replies on “Foreldrar á Facebook (UTN)”

 1. Það er ekki óþekkt að vinnuveitendur hafa losað sig við starfsfólk vegna þess að það er ósátt við hvernig viðkomandi starfsfólk hagar einkalífi sínu. (Til mörg erlend dæmi).

  Það er auðvitað mismunandi eftir vinnustöðum, en það er vafasamt að blanda einkalífi og vinnu svona mikið saman. Þú þarft auðvitað að ritskoða þig betur (og gerir sjálfkrafa) eftir því sem „vina“hópurinn stækkar, og fleiri en bara vinir og nánustu geta séð allt sem þú skrifar.
  Sama á við um djamm-myndir.

  Síðastliðið sumar tók ég eftir leikskólakennara í hópi húsatökufólks (nokkur svona tilfelli á síðasta ári). Þ.e.a.s., ég keyrði þarna framhjá og sá kennaran ásamt fleirum að hjálpa til. (Með fyrirvara um að ég sé nærsýnn, þá erég 90+% viss.) Þetta var áður en lögreglan kom og þurfti að bera fólk út, og ég veit ekki hvort að kennarinn var þá.

  Ég get auðveldlega séð fyrir mér fullt af foreldrum æsa sig yfir slíku. Og myndu eflaust koma með rök um að hvort að kennarinn væri með réttan boðskap handa börnunum etc.etc.

  Þar komum við einmitt að fínni línu. Lögbrot. Ef að einstaklingur gerir e-ð þannig að hann hlítur dóm fyrir, hvernig á vinnustaðurinn að bregðast við?
  Í sumum tilfellum er það augljóst, t.d. ef að atvinnu-bílstjóri er missir prófið.
  Í öðrum getur þar verið á gráu svæði…

  Sumum finnst að einkalíf starfsmanns eigi að vera vinnuveitandanum óviðkomandi svo lengi sem að starfsmaðurinn geti sinnt vinnu sinni vel.
  Margir vinnuveitendur líta hinsvegar á að starfsfólk sé andlit fyrirtækisins út á við, og þurfi að haga sér í samræmi við það.

  Ég er bara að röfla… en já, pælingar…

 2. Já þetta er á soldið gráu svæði. Maður getur gefið af sér ákveðna mynd á facebook sem maður vill ekki endilega taka með sér í vinnuna. En við eigum okkur öll einkalíf og það má ekki dæma okkur í stafi fyrir það sem við gerum utan vinnutíma, nema það sé eitthvað sem brýtur lög eða eitthvað sem brytur verulega í bága við okkar siðferðilegu gildi.

  Það er mín skoðun, svo haltu bara áfram að djamma og njóta lífsins 😉

 3. Það er annað sem verður að taka með inn í þetta varðandi leikskóla- og grunnskólastarfsfólk Natti, það er að við erum opinberir starfsmenn (lang lang flestir) og þar með höfum við töluverð réttindi þegar kemur að uppsögnum. Ég efast um að það sé auðvelt að láta okkur fara bara af því að við erum asnaleg á Facebook eða tökum þátt í mótmælum sem eru á gráu svæði lagalega, ekki nema að við yrðum dæmd fyrir það og jafnvel þá er vinnuveitandi á hálum ís nema að hann geti rökstutt að dómurinn hefði áhrif á framistöðu starfsmannsins. Sem dæmi um þetta má nefna það sem gerðist á Veðurstofunni (eineltismálin), það var engum sagt upp í kjölfarið á því. En ég hef svosem lítið velt þessum hluta fyrir mér, ég er aðallega að pæla í samskiptum við foreldra.

  Já Maggý, ég mun gera það. Enda hef ég nú svosem hvorki áhyggjur af mér né þeim foreldrum (2-4) sem ég er með á Facebook varðandi þetta (enda þekkti ég þá eiginlega alla fyrir).

 4. Í vinnunni minni er bannað að hafa foreldra á facebook, nema að maður hafi þekkt þá áður 🙂 Mér finnst meira að segja stundum óþægilegt að hafa yfirmanninn minn á facebook. Ég kýs að foreldrar barnanna viti ekkert meira um mig en þeir fá að vita í gegnum starfið, það kemur þeim ekkert við hvað ég gerir utan vinnu 🙂

 5. Verð að kommenta á þessa sögu með kossinn, hvað er að fólki, það er greinilega enginn sem nennir að kyssa þessa kerlingu. Auðvitað þurfa allir að fá að hafa sitt einkalíf alveg aðskilið frá vinnunni hvort sem það er grunnskólakennari, leikskólakennari eða eitthvað annað. Ég er ekki viss um að ég yrði ánægð ef að ég fengi svona komment 🙁

Comments are closed.