Jón Gnarr, SHS og útsvarið á Seltjarnarnesi

Í seinasta Reykjavík Grapevine er viðtal við Jón Gnarr. Þetta er eins konar kosningaviðtal þar sem reynt er að fá svör frá honum við spurningum sem gætu, eða ættu allavega, að skipta kjósendur máli fyrir kjördag eftir tæpa viku. Mér finnst reyndar að það hefði mátt krefja Jón ennþá innihaldsmeiri svara en hann gefur í viðtalinu en þess var kannski ekki kostur. Illugi Jökulsson snaraði viðtalinu yfir á íslensku og birti á bloggi sínu. Þar sem ég hafði ekki enn orðið mér úti um Grapevine þá sá ég viðtalið fyrst þar og rak strax augun í eftirfarandi ummæli Jóns.

„Hvað snertir það að leggja toll á fólk af Seltjarnarnesi þegar það vill koma til Reykjavíkur, þá finnst mér ekkert nema eðlilegt að þetta fólk leggi eitthvað af mörkum til borgarsjóðs, því það notar fullt af þjónustu frá okkur – við slökkvum eldana þar til dæmis. Nú þegar þarf að skera niður af því það vantar peninga, þá grobba Seltirningar – ríkasta sveitarfélag landsins – sig af því að borga lægsta útsvar landsins.“

Nú veit ég að það er ekki beinlínis vinsælt að gagnrýna Besta-flokkinn eða Jón Gnarr en fyrst að flokkurinn er nú á annað borð í kosningabaráttu þá hreinlega verð ég að fá að benda á hversu mikla vanþekkingu þessi ummæli afhjúpa. Slökkvilið Höfuðborgarsvæðisins er rekið sameiginlega af sveitarfélögunum sem mynda höfuðborgarsvæðið (hintið er í nafninu sjáið til). Kostnaðinum er skipt eftir íbúafjölda. Reykvíkingar eru ca. 60% af íbúum höfuðborgarsvæðisins og hlutur þeirra er eftir því. Á móti kemur að formaður stjórnar SHS kemur ávallt frá borginni. Seltirningar borga hlutfallslega jafn mikið og Reykvíkingar til SHS. Það að Seltirningar geti tekið þátt í þessum kostnaði en samt haldið útsvari lágu er auðvitað þeirra einkamál (þessi setning gleymdist í upphaflegri útgáfu færslunnar). Ég er kannski bara gamaldags og púkó en mér finnst að þetta sé akkúrat svona hlutur sem maður sem er jafnvel að verða borgarstjóri eftir tæpa viku eigi að vita.

Annars óska ég Jóni og Besta flokknum góðs gengis í kosningunum og vona að þeir borgarfulltrúar sem flokkurinn fær setji sig vel inn í öll mál. Vonandi standa þeir sig betur en núverandi borgarfulltrúar hafa almennt staðið sig, sem er þó líklega ekki erfitt.