Náungakærleikur Kolbrúnar Bergþórsdóttur

Kolbrún Bergþórsdóttir virðist hafa verið í einhverju ójafnvægi um helgina. Hún hafði eins og flestir aðrir heyrt af fréttatilkynningu sem send var út í tilefni þess að Stephen Hawking er um að bil að senda frá sér nýja bók þar sem hann segir frá nýjum kenningum sínum er varða hlutverk þyngdarlögmálsins í upphafi heimsins. Í fréttatilkynningunni er sú algenga aðferð notuð að setja fram eitthvað krassandi sem vekur áhuga fólks og eykur umtal og í þetta skiptið er ‘húkkið’ það að Hawking segi að ljóst sé að Guð hafi ekki skapað heiminn.

Þetta virðist fara eitthvað í taugarnar á Kolbrúnu. Hún spyr hvort að þetta þýði ekki bara að guð sé þyngdarlögmálið eða að það liggi í honum af því að hann rúmi allt. Það getur svo sem vel verið að það sé rétt hjá Kolbrúnu. En þá er hún samt að tala um einhverja nýja útgáfu af guði því að það er alveg ljóst að þetta á ekki við um þennan þrefalda sem lýst er í biblíunni, né nokkurn annan af þeim sem vinsælastir eru meðal trúfólks á jörðinni.

Af einhverjum ástæðum sér Kolbrún svo tækifæri til að sparka aðeins í okkur trúleysingjana í lokin á pistlinum sínum. Hún segir orðrétt:

Fólk sem trúir ekki á neitt er óhamingjusamasta fólk sem maður kynnist. Það þykist yfirleitt vera ógurlega gáfað og lætur sér þykja vænt um fáa og læsist inni í eigin vanlíðan. Nú skal því ekki haldið fram að þetta eigi við um Hawking. En það er rétt að hafa í huga að gáfað fólk veit ekki allt – ólíkt Guði.

Þar höfum við það. Við trúleysingjarnir erum óhamingjusamir og sú óhamingja birtist í ofurtrúa á eigin gáfum og kaldlyndi í garð náungans. Svo ráðandi er þetta ólyndi okkar að við lokumst á endanum af inni í köldum og ferkönntuðum hugarheimi okkar, þar sem ekkert gott fær þrifist.

Ég ætla ekki að úthúða Kolbrúnu neitt sérstaklega fyrir þessi orð hennar. Þeir sem þekkja til trúleysingja vita best að þessi orð hennar dæma sig alveg sjálf. Ég er aðallega feginn því að þurfa ekki að reyna að réttlæta svona fordóma fyrir sjálfum mér á sama tíma og ég þykist aðhyllast trúarbrögð sem í orði kveðnu eiga að snúast um náungakærleik.

-bætt við kl. 18:33

Orð Kolbrúnar eru úr Morgunblaðinu í dag. Gleymdi að taka það fram.