Nýr vinkill á ruglinu í Færeyjum – Ábyrgðin liggur hjá Jóhönnu!

Kristnir Íslendingar eru margir hverjir farnir að ganga merkilega langt í meðvirkninni og siðferðilegu afstæðishyggjunni. Nú eru nokkrir þeirra farnir að halda því fram, í fullri alvöru, að Jóhanna hafi átt að vita betur en að ögra Færeyingum!

Það er reyndar ekki alveg á hreinu í hverju ögrunin felst, hvort að það að Jóhanna vogi sér að hafa maka sinn með sem hefur tíðkast í opinberum heimsóknum eða í því einu að vera lesbía. En þetta er óneitanlega frumleg nálgun.

Sigurður Þórðarson segir:

Verkurinn er sá að vinum okkar Færeyingum er mjög annt um að Guðs orð og ég skil ekki ástæðu þess að verið sé að storka þeim með þessari heimsókn? #

Nú reyndar veit ég ekki hvort að heimsóknin sé að frumkvæði íslenskra eða færeyskra yfirvalda, en hvernig getur opinber heimsókn talist storkun vegna kynhneigðar ráðherra? Kom þetta Færeyingum í opna skjöldu? Hefur kynhneigð Jóhönnu ekki alltaf legið fyrir? Ef fyrirsjáanleg voru einhver vandamál vegna þessa var það þá ekki á könnu gestgjafanna að eiga við það? Er viðkvæmni þeirra yfirhöfuð eitthvað sem okkur skiptir máli?

Það er annars fyndið hvað Sigurður var fljótur að opinbera sig um leið og ég gekk á hann.  Jóhanna getur bara tekið þátt í gleðigöngum hér á landi, en falið skömm sína erlendis.

Einhver Benedikta E moggabloggari (eins og Sigurður) segir:

Þess vegna sýnir Jóhanna gestgjöfum sínum og velgjörðarmönnum íslensku þjóðarinnar – Færeyingum – algjöran dónaskap og veldur íslensku þjóðinni skömm – með ögrun sinni í opinberri heimsókn.

Ef hún hefði verið í einka erindum þá gat hún haft það eins og henni sýndist en þegar hún er í opinberri heimsókn á vegum Íslands þá ber henni að haga sér eins og þjóðarleiðtoga sæmir með hefðbundnum hætti og mannasiðum. #

Ég verð bara að opinbera eigin fávisku: hvaða ögrun hefur Jóhanna sýnt með hætti sínum og mannasiðum? Átti hún að hætta að vera lesbía rétt á meðan hún skrapp til Færeyja?

Mér finnst alveg ótrúlegt hversu langt íslensk skoðanasystkini færeyska þingmannsins eru tilbúin til að teygja sig til að mæta fordómum hans með sínum eigin í vörn þeirra fyrir hann. Þegar fólk reynir svo að snúa ábyrgðinni á upphlaupinu upp á þann sem ekkert hefur sér til sakar unnið annað en að mæta í opinbera heimsókn þá verður maður eiginlega hvumsa. En þar sem ég er þess nokkuð fullviss að svona fordómar séu á miklu undanhaldi hér á landi þá jafnar maður sig fljótt.

Ps. Lokaorðin í bloggi Benediktu (sem heitir víst Borghildur í alvörunni) eru nákvæmlega í anda þess sem ég skrifaði um í þessari færslu. Nú líður að því að múslimar fái úthlutað lóð fyrir byggingu Mosku. Það verður áhugavert að fylgjast með viðbrögðum fólks af heittrúaða vængnum hérna heima þegar að því kemur. Hingað til hefur það fólk ekki verið jafn tilbúið að afsaka trúarskoðanir múslima og það sýnir núna í garð Færeyingsins.