Vonlaus prestur

Guðrún Karlsdóttir er ein af nokkrum prestum sem blogga hjá Eyjunni. Hún er eins og aðrir prestar og fleiri aðilar sem vilja fá að stunda trúboð í skólum í heilmikilli vörn útaf tillögum mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar sem ganga út á að trúboð og önnur trúarstarfsemi fari ekki fram í skólum sem borgin rekur. Guðrún er reyndar í svo mikilli vörn að hún virðist eitthvað hálf kvekkt, allavega ef við miðum við þessi orð hennar:

Þetta eru mikilvæg mannréttindi vegna þess að foreldrar hafa kvartað svo mikið yfir þessu. Ætli þetta séu sömu foreldrar og biðja um leyfi fyrir börnin sín svo þau komist í Vatnaskóg? Ætli þetta séu sömu foreldrar og þeir sem hafa skráð sig úr Þjóðkirkjunni en vilja samt að börnin þeirra fermist þar? #

Er hún að gera lítið úr réttindum barna til þess vera ekki tekinn út úr kennslu vegna trúarskoðana? Er hún að gera lítið úr því ástandi sem skapast í fjölmörgum skólum þegar meirihluti nemenda hverfur úr kennslu í tvo daga með tilheyrandi raski og tapi á kennslu fyrir aðra nemendur? Og er manneskjan að ýja að því að það búi svo ekkert á bakvið þetta nema hvað? Frekja og tilætlunarsemi? Hvað gengur manneskjunni eiginlega til?

Það er alveg magnað að fylgjast með hverjum prestinum og trúarleiðtoganum á eftir öðrum ana fram á sjónarsviðið og afvegaleiða umræðuna með rangfærslum og lélegum mælskubrögðum. Og af því að þeim hefur tekist að eitra umræðuna eins mikið og t.a.m. hinar röngu og óupplýstu fullyrðingar sem meira að segja kennarar sem hringdu inn í Dægurmálaútvarp Rásar 2 þegar málið var rætt í dag bera með sér þá er víst best að taka þetta fram strax:

  • Það er EKKI verið að leggja til að fræðslu um trúarbrögð, þar sem kristni verður eðlileg gerð meiri skil en öðrum trúarbrögðum, verði hætt í grunnskólum.
  • Það er EKKI verið að leggja til að leik- og grunnskólar hætti að leggja mikið upp úr jólaundirbúningi eða að hætt verði að halda jólaböll í skólum. Ég verð svo að benda á að á öllum þeim árum sem ég hef starfað á leikskólum hefur ekki verið sunginn einn einasti sálmur fyrir jól svo að varla hefur það mikil áhrif.
  • Það er verið að leggja til að boðun trúar verði aflögð í opinberum menntastofnunum og að prestar hafi ekki, frekar en aðrir fulltrúar lífsskoðunarfélaga, greiðan aðgang að þessum stofnunum.
  • Það er verið að leggja til, í anda skóla án aðgreiningar, að hætt verði að gera upp á milli nemenda og að taka suma út fyrir sviga vegna trúarskoðana.

Það myndi hjálpa umræðunni mikið ef að fulltrúar ríkustu hagsmunasamtakanna sem að henni koma gætu lyft sér upp á eðlilegt plan í henni og slepptu rangfærslum og útúrsnúningum.

-bætt við færslu klukkan 23:45. Þó að ég sé trúlaus og þar með laus við siðferði og samvisku er fyrirsögnin á þessum pistli mínum aðeins að naga mig. Hún er, fyrir þá sem ekki elta linkinn hér fyrir ofan, útúrsnúningur á nafninu á færslu Guðrúnar þar sem hún lætur tilvitnuðu orðin falla. Ég veit ekkert um það hvort að Guðrún sé vonlaus sem prestur. En í rökræðum virðist hún ekki skörp.