Stjórnlagaþing og sætasta stelpan á ballinu

Eru ekki örugglega fleiri en ég hugsi yfir því hvernig maður eigi að fara að því að velja sér frambjóðendur til að kjósa á stjórnlagaþingið? Er ekki nokkuð ljóst að með svona mikinn fjölda frambjóðenda þá hafi þeir sem eru þekktir og/eða vel tengdir töluvert forskot á hina? Á fólk ekki fyrst og fremst eftir að kjósa þá sem það þekkir eða hafa komið sér það vel á framfæri að flestir vita hvað þeir standa fyrir?

Ég er með nokkur mál í huga sem ég vil hafa á hreinu að þeir sem ég kýs séu nokkurn vegin sammála mér um. Hvernig á ég að komast yfir það að kynna mér afstöðu á fimmta hundrað einstaklinga á þessum tíma sem er til stefnu? Það er svo líka annað að kosningin sjálf er á akkúrat þegar ansi stór hópur er á fullu í upplestri fyrir próf þannig að ekki munu þeir hafa mikinn tíma til stefnu.

Kannski er ég að mála skrattann á vegginn. Ég vona það. Kannski verða upplýsingarnar sem koma frá kjörstjórn útfærðar þannig að auðvelt verður að kynna sér helstu stefnumál frambjóðenda og skoðanir á þeim málum sem helst hefur verið rætt um líkt og útfærslu á þrískiptingu ríkisvalds og aðskilnaði ríkis og kirkju. Eða, það sem mér finnst líklegra, að einhver af netsnillingunum sem ég veit að eru að vinna mikið hugsjónastarf í útfærslum á félagsmiðlatækninni í kringum öll þessi mál okkar (eins og Finnur frændi) geti kokkað upp eitthvað sem auðveldar manni úttektina á frambjóðendum.

En ég hef samt pínu áhyggjur af því að þetta verði meira og minna vinsældarkosningar, sem skila ekkert endilega góðum niðurstöðum fyrir þingið sjálft. Vonandi hef ég rangt fyrir mér.

Join the Conversation

  1. Avatar
  2. Avatar

3 Comments

  1. Ef kynning á málefnum frambjóðenda verður til staðar á netinu þá veltur bara á kjósendum hvort þetta verði kosning á vinsælu fólki eða vinsælum skoðunum. Annars er hálfglatað að þetta fari svona fram, fyrir mér ætti að leggja fram tillögur að stjórnarskrárákvæðum sem kosið yrði um hvert fyrir sig. Þetta af/á kosningakerfi sem við höfum núna er úrelt og meingallað og kemur engum skilaboðum í kerfið um hvað kjósendur vilja. Rafrænar þjóðaratkvæðagreiðslur um stök málefni mætti með réttu kalla lýðræði, en þetta svokallaða fulltrúalýðræði þar sem við veljum hóp af fólki á fjögurra ára fresti án kosts á afturköllun þess á milli er skelfileg misbeiting á orðinu „lýðræði“.

  2. Þetta fyrsta ‘ef’ hjá þér er ansi stórt. Getum við treyst því að allir í þessum risastóra hópi geri grein fyrir þeim upplýsingum sem kjósendur telja sig þurfa?

    Svo finnst mér ekki alveg hægt að velta þessu bara yfir á kjósendur. Mér finnst nefnilega ekkert sjálfsagt við það að fólk kynni sér persónu og málefni nærri því 500 manns á þeim tíma sem er til stefnu nema að upplýsingarnar verði alveg einstaklega vel fram settar.

  3. Ég hef séð fólk vera með kynningar á facebook í gríð og erg, svo eru til síður sem taka viðtöl við frambjóðendur: http://www.svipan.is/?p=13594

    Það er ekki bara verið að velta þessu á kjósendur, ég efast ekki um að frambjóðendurnir sjálfir séu viljugastir allra til að kynna öðrum skoðanir sínar. Svo tek ég eftir að dómó hefur ákveðið að senda auglýsingu til allra landsmanna með kynningu á frambjóðendum: http://www.kosning.is/stjornlagathing/frambjodendur/kynning-a-frambjodendum/

Leave a comment