Fríkirkjupresturinn…

skrifar grein sem er jafn góð og þessi grein eftir Örn Bárð er vond.

Ég veit ekki hvort ég eigi að þora að gagnrýna Örn Bárð aftur. Hann óð hér inn þegar ég gerði það um daginn og sakaði mig um dramb og yfirlæti með Biblíutilvitnun. Svaraði reyndar engu en það er að sjálfsögðu fyrir neðan hans virðingu. Mig langar samt að benda á dæmi um það hvernig málflutningur Arnar er.

Í grein sinni Trúboð úr skólum, reynir Vantrúarmaðurinn Reynir Harðarson ítrekað að gera samstarf kirkju og skóla í borginni tortryggilegt með því að hagræða sannleikanum. Þessi ákafi trúmaður virðist vilja koma allri umræðu um trú og lífsskoðanir út úr skólum borgarinnar og væntanlega landsins alls.

Í fyrri setningunni sakar hann Reyni um að hagræða sannleikanum. Í seinni setningunni hagræðir hann sjálfur sannleikanum og kallar Reyni trúmann. Ég hef skrifað um þessa tilhneigingu sumra trúmanna að vilja endilega draga okkur trúleysingja inn í sitt mengi. Örn Bárður er prótótýpan fyrir ástæðu númer tvö.

Reynir segir: „Ef börn eru leidd til messu á vegum skólans er skólinn að fara út fyrir hlutverk sitt og grípa inn í trúarlegt uppeldi foreldranna.“

Í áliti Dóru Guðmundsdóttur, Cand. Jur, LL.M frá 13. október 2010 sem unnið var fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið um trúar­bragðafræðslu í leik- og grunnskólum í ljósi 2. gr. 1. samnings­viðauka Mannréttindasáttmála Evrópu kemur fram að slíkt sé sjálfsagt. Í álitinu segir m.a.: „Einnig að heimilt [sé] að fjalla um og kynna nemendum þá trú sem er þjóðtrú í viðkomandi ríki; jafnvel þannig að meiri fræðsla fari fram í þeim trúarbrögðum en öðrum, og á það jafnt við um kynningu á sögu, kenningum og helgihaldi. Þá er ekkert sem bannar að nemendur fari í heimsókn á staði þar sem trúariðkun fer fram …“

Feitletranir eru mínar. Og þær eru afhjúpandi fyrir málflutning Arnar Bárðar. Hann annað hvort skilur ekki það sem Reynir segir eða… tja… nú þori ég ekki að segja meira. Ég gæti fengið á mig aðra Biblíutilvitnun.