Ég veit ekki af hverju kjörsóknin í gær var svona léleg. Ég væri alveg til í yfirvegaða umræðu um það. Guðrún Pétursdóttir formaður stjórnlaganefndar virðist hins vegar vera búin að finna orsökina og hún felst annars vegar í því að kosningavélar stóru flokkana fóru ekki af stað og hins vegar að almenningur sé sinnulaus um þessi mál.
Þetta finnst mér lélegt hjá Guðrúnu og held að hún sé að láta eigin vonbrigði blinda sig. Getur verið að orsökina sé frekar að finna í stjórnlagaþinginu sjálfu? Tilgangi þess og skipulagi? Framkvæmd kosninganna? Fjölda frambjóðenda? Lélegri kynningu?
Þegar við lítum til kjörsóknar í seinustu þing- og sveitarstjórnarkosningum og þess að kjörsókn í þá næsta tilgangslausri þjóðaratkvæðagreiðslu um IceSave var miklu betri en í gær þá finnst mér í það minnsta augljóst að eigi að vera hægt að draga einhvern lærdóm af því sem gerðist í gær þá verði það ekki þeir sem aðhyllast viðhorfin sem Guðrún setur fram sem hjálpa okkur í því verkefni.
Má ég frekar biðja um málefnalega umræðu en fýluköst?