Óþolandi væl í minnimáttar

Nú virðist aðeins hafa lægt í umræðunni um tillögur Mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar um trúboð í menntastofnunum. Málið er í ferli og óljóst hvað kemur út úr því öllu saman. En ég hef verið að velta aðeins fyrir mér ákveðnum rökum þeirra sem vilja halda trúboðinu inni í skólum. Nánar tiltekið meirihlutarökunum sem kristallast í þessum orðum Arnar Bárðar Jónssonar:

Svar mitt er: Það hefur alltaf haft kostnað í för með sér að tilheyra minnihlutahópi. Þessi nálgun, „vesalings ég og börnin mín”, virkar ekki sannfærandi. Þú verður bara að kyngja því að börnin þín uppgötvi að þau tilheyri minnihlutahópi ef þú hefur valið sjálfum þér og þeim lífsskoðanir minnihlutans. Kristnir menn um allan heim verða að þola hið sama. #

Hvað er raunverulega verið að segja með þessum rökum? Er það ekki augljóst þegar við hugsum málið örlítið?

(mann)Réttindi minnihlutahópa eiga að vega minna en forréttindi meirihlutans.

Þetta finnst mér ekki fallegur hugsanagangur. En kannski erum við nú búinn að finna hið margumrædda kristilega siðgæði.