Ef allt fer að óskum útskrifast ég sem leikskólakennari núna í sumar. Ég er að klára einn bóklegan áfanga auk þess sem ég er að gera lokaverkefni, en í því flétta ég saman ljósmyndaáhuga mínum við leikskólastarfið sem kannski má segja að sé köllun mín. Ég hef gríðarlega gaman af þessu starfi og mikinn áhuga, eins og líklega langflestir sem fara í námið. Enn hefur allavega ekki frést af leikskólakennaranemanum sem skráði sig í námið vegna launana sem það býður upp á að lokinni útskrift.
Stundum held ég að ánægja leikskólakennara með starfið sitt og sú staðreynd að þeim hættir til að setja hagsmuni barnanna ofar sínum eigin sé meðvitað nýtt gegn þeim af opinberum rekstraraðilum leikskóla. Hvaða aðrar ástæður gætu verið fyrir því að launin séu jafn fáránlega lág og þau eru? Af hverju ætla sveitastjórarmenn víðsvegar um landið sér að beita eggvopni niðurskurðar nú í kreppunni á stétt sem fékk ekki að taka þátt í góðærinu af neinu ráði?
Í mesta góðærinu gekk illa að manna flesta leikskóla víðasthvar á landinu. Á hverju hausti bárust fregnir af erfiðleikum í mannahaldi og því að leikskólar þyrftu að biðja foreldra um að halda börnum heima dag og dag ef veikindi voru meðal starfsfólks skólanna. Og áður en nokkrum dettur í hug að snúa veikindum upp á leikskólakennara þá eru þeir sá hópur á leikskólunum sem fæsta veikindadaga tekur.
Leikskólar reiddu sig á ófaglært starfsfólk sem að minni reynslu má skipta í tvo hópa. Annars vegar konur frá fertugu og upp úr sem staldra lengi við á hverjum stað og hins vegar ungt fólk sem annað hvort hefur hætt í menntaskóla eða er nýútskrifað. Fólkið í síðari hópnum getur yfirleitt ekki hugsað sér að ílengjast í leikskólastarfinu, þó að auðvitað gerist það líka. Ég er jú dæmi um það. Ekkert er fjarri mér en að efast um gæði og gjörvileika ófaglærða fólksins á leikskólum. Ég hef verið slíkur sjálfur í sex ár og ég hef unnið og vinn með hreint út sagt frábæru fólki sem ekki er með háskólamenntun í faginu.
En ef að búið væri að leikskólum og leikskólastarfinu af alvöru metnaði frá dyrum opinberra rekstraraðila þá væru skólarnir meira og minna mannaðir af faglærðu fólki og námið sömuleiðis fjölmennara en það er nú. Ég er í Háskólanum á Akureyri í fjarnámi. Ásamt mér munu heilir þrír nemendur útskrifast í sumar. Ef við teljum dagskólafólkið með nær þessi fjöldi e.t.v. upp í 15 nemendur.
Og þvílíka gleðiástandið sem býður okkar eftir útskrift. Afnám afsláttar af dvalargjöldum og annara fríðinda sem teljast til kjarabóta. Ófaglegar sameiningar og fækkun stjórnenda í Reykjavík þar sem ekkert raunverulegt samráð hefur verið haft við fagstéttir og engin veit hvaða áhrif munu hafa. Og launamálin. Já, við munum s.s. gangast undir kjarasamninga sem runnu út fyrir þremur árum. Verði ég ekki orðinn deildarstjóri munu mánaðarlaun mín skv. launatöflu hljóma upp á heilar 247.000 krónur.
———
Vitið þið hvað það versta við þetta allt saman er? Mér finnst alveg hundleiðinlegt að þetta sé það sem er ofan á í fjölmiðlaumræðu um leikskóla. Alveg hreint ömurlegt. Miklu frekar vil ég tala um hversu gaman það er í vinnunni minni. Hvernig það er þegar heill hópur af börnum hrópar nafnið manns í gleði þegar maður mætir eftir smá fjarveru. Hvað það er gaman að fylgjast með börnum að leik. Hláturinn, gleðina, sorgina, reiðina, fyrirgefninguna, sönginn, dansinn, fjörið og vináttuna. Og það mest heillandi og gefandi öllu, að fylgjast með barni öðlast nýja þekkingu og færni. Að sjá þegar „jaaaaaá svona er þetta!“ mómentið ríður yfir. Sigurinn!
En nei. Þökk sé því sem ég get eiginlega ekki kallað neitt annað en virðingarleysi sveitastjórnarmanna landsins þá er fókusinn í umræðunni á neikvæða hluti. Og verður því miður að vera það áfram ef menn neita að vakna.
So it goes.