Uppeldisfræði Jónasar Kristjánssonar

Jónar Kristjánsson fyrrverandi ritstjóri og núverandi nöldrari skrifar um skokkarann sem gekk í skrokk á barni í Hveragerði. Jónar bíður ekki upp á að vísað sé beint í ákveðnar bloggfærslur frekar en annað sem tilheyrir góðum netsiðum eins og t.d. athugasemdir við greinar (fyndið að maðurinn sem hefur ítekað spáð netmiðlum sigri yfir prentmiðlum nýti sér ekki það helsta sem netmiðlarnir hafa fram yfir hina) þannig að ég tek mér það bessaleyfi að birta bloggið bara í heild sinni hér:

Uppeldi í Hveragerði
Í Hveragerði gerðu krakkar hróp að skokkara. Hann veitti einum þeirra hæfilega ráðningu. Ég legg til, að þorpið fái skokkarann til aðstoðar við siðvæðingu barna. Greinilega er hér dæmi um, að sum börn í Hveragerði fái ekki sæmilegt uppeldi. Það er úti af kortinu, að gerð séu hróp að fólki á almannafæri. Ég efast um, að slíkt þekkist annars staðar í Vestur-Evrópu. Systir mín skokkar í Florida og hefur í þrjátíu ár ekki orðið vör við hróp að skokkurum. Íslenzk börn eru sum hver ótrúlega illa uppdregin eða bara alls ekki. Skrítið, að fyrirsagnir fjölmiðla snúast um ósvífni skokkarans.

Hæfileg ráðning að mati Jónasar er að hávaxinn karlmaður á milli þrítugs og fertugs slái 12 ára barn í andlitið, grípi það kverkataki og keyri niður í jörðina.

Látum ofbeldisdýrkun Jónasar liggja á milli hluta í bili en förum yfir tvö atriði. Það fyrsta snýr að því að Jónas er á því að íslensk börn, eða allavega börn í Hveragerði, séu verr upp alin en önnur börn. Þetta virðist hann byggja á þessu eina atviki. Ég held að þetta sé kjaftæði. Það þarf ekki að lesa t.d. breska fjölmiðla lengi til þess að sjá miklu miklu miklu verri hegðun unglinga gagnvart fullorðnu fólki, allt frá áreiti til hreinna morða. Mér dettur hins vegar ekki í hug að álykta um hegðun breskra ungmenna almennt útfrá því sem ratar í fjölmiðla enda er fréttamat fjölmiðlafólks þegar kemur að börnum ákaflega brenglað.

Hitt atriðið sem mig langar að minnast á er það hvaða ráðningu börnum er veitt með ofbeldi. Nú eru líkamlegar refsingar bannaðar bæði skv. íslenskum lögum og Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna sem við höfum skuldbundið okkur til að fara eftir. Ein af stærstu ástæðunum fyrir því, fyrir utan auðvitað það að ofbeldi á aldrei að líðast, er sú að ofbeldi og líkamlegar refsingar skila yfirleitt aldrei þeim árangri sem leitast er eftir.

Ekki nema að Jónas vilji virkilega að við framleiðum börn sem búið er að brjóta niður andlega (reynslan af Breiðuvík var auðvitað mjög góð eða hvað?) eða þá börn sem læra að ofbeldi geti verið eðlileg lausn á vandamálum. Fyrir utan að verða líklegri til að beita sjálf ofbeldi geta börn sem verða fyrir ofbeldi orðið undirförul og reyna frekar að ljúga og blekkja til að hylma yfir hegðun sína.

En auðvitað á maður ekki að vera að eyða tíma í nöldrið í Jónasi. Mér bara blöskrar svo oft þessi fornu sjónarmið um að ofbeldi sé það eina sem virki á sum börn. Ég hélt í alvörunni að fólk væri búið að átta sig. Nóg eru nú fordæmin, bara hérna á Íslandi.