Leikskólarnir í lífi mínu

Í dag er haldið upp á Dag leikskólans á Íslandi. Flestir leikskólar héldu upp á hann á föstudaginn skv. ábendingu frá Félagi Leikskólakennara en einhverjir ákváðu þó að gera það eftir helgi. Leikskólarnir á Héraði ætla t.a.m. að gera sér dagamun á morgun heyrði ég frá stelpu sem er með mér í leikskólakennaranáminu. Ástæðan fyrir því að 6. febrúar varð fyrir valinu sem Dagur leikskólans er sú að þann dag árið 1950 stofnuðu 22 konur sem lokið höfðu námi við Uppeldisskóla Sumargjafar árið 1948 starfsmanna- og verkalýðsfélag sem var vísirinn að Félagi Leikskólakennara.

Uppeldisskóli Sumargjafar varð svo seinna Fóstruskóli Sumargjafar, hann varð svo að Fósturskóla Íslands árið 1973 og þá máttu karlar í læra fagið.  Sá fyrsti útskrifaðist svo 10 árum síðar og mér telst til að ég verði þrítugastiogeitthvað karlinn sem útskrifast með þessa menntun hér á landi. Fósturskólinn rann svo inn í Kennaraskólann sem breyttist svo í Kennaraháskólann. Fyrir stuttu varð svo til Menntavísindasvið HÍ og er gamli KHÍ hluti af því. Sjálfur er ég þó í Háskóla Akureyrar sem varð fyrstu til þess að bjóða upp á b.ed nám í leikskólakennarafræðum á Íslandi.

En nóg af upprifjun á sögu. Því miður halda margir leikskólakennarar upp á Dag leikskólans með þungum huga. Út um allt land standa fyrir sparnaðaraðgerðir sem fyrirsjáanlegt er að komi mismikið niður á faglegu starfi á leikskólum. Einna verst er staðan í Reykjavík eins og hefur varla farið framhjá þeim sem fylgjast með fréttum.

En í tilefni dagsins ákvað ég að búa til smá ljósmyndablogg. Ég fór út og myndaði alla leikskóla sem ég hef komið við í á ævinni, nema reyndar Fögrubrekku en ég átti fyrir fína mynd af henni.

Smáralundur, Hafnarfirði. Þar var ég sem þriggja til sex ára lítill patti. Hafði ekki komið í garðinn í 22 ár og hann hefur mikið breyst, enda stæðust líklega fæst leiktækin sem voru þar nútíma öryggiskröfur.

Hamraborg, Reykjavík. Fyrsti leikskólinn sem ég vann á. September til nóvember 2002. Þessi leikskóli er ansi vel falinn í Grænuhlíð. Ansi stór og fínn garður sem var verið að endurnýja og stækka þegar ég vann þarna.

Álfatún, Kópavogur. Desember 2002 til maí 2003. Skrýtnasta leikskólahúsnæði sem ég hef komið í. Er gamalt þriggja hæða einbýlishús sem fyrrverandi eigendur breyttu í einkaleikskóla. Garðurinn er meira og minna allur ein brekka. Ég var þarna fljótlega eftir að bærinn tók yfir reksturinn og mér skilst að skipulagið innandyra sé orðið betra en það var.

Fagrabrekka, Kópavogur. Eftir að hafa arkað um Kópavog og borið út póst í tæplega hálft ár hóf ég störf á Fögrubrekku í janúar 2005. Ég hef því unnið þar í rétt rúmlega sex ár. Fljótlega eftir að ég byrjaði varð mér ljóst að ég hafði áhuga á leikskólastörfum og hóf að líta á þau sem meira en tímabundið skemmtistarf (því ekki voru það nú launin sem löðuðu mann á leikskólana!). Haustið 2007 byrjaði ég svo í leikskólakennaranáminu í HA.

Bjarmi, Hafnarfirði. Þarna var ég í fjórar vikur í upphafi árs 2009 sem vettvangsnemi. Þetta er einkarekin ungbarnaleikskóli. Ekki stór en ansi skemmtilegur!

Marbakki, Kópavogi. Seinni vettvangsnámsskólinn. Var þarna í góðu yfirlæti í 10 vikur um haustið 2010. Lærði mikið og leið vel.

Og þannig er nú það.

Til hamingju með daginn starfsfólk, foreldrar, velunnarar (á borði, en ekki bara í orði) og síðast en ekki síst börn á leikskólum landsins!