Að gefnu tilefni; Karl Sigurbjörnsson er opinber starfsmaður og þjóðkirkjan er ríkisstofnun

Í skjóli 62. greinar stjórnarskrárinnar, þessarar sem að manni sýnist stjórnlagaráðsmenn ekki þora að taka afstöðu til eða ræða þrátt fyrir að hafa sumir líklega  fengið talsverðan stuðning einmitt út á afstöðu sinnar til hennar, er Þjóðkirkjan opinber ríkisrekin stofnun og starfsmenn hennar teljast opinberir embættismenn. Þó að í lögum um þjóðkirkjuna (þar sem öllum vafa um að prestar séu opinberir embættismenn er eytt) sé talað um að hún sé sjálfstætt trúfélag þarf ekki annað að en benda á að til eru sérstök lög um hana en engin önnur einstök trúfélög, að sóknir kirkjunnar þurfa að standa skil á reikningum til ríkisendurskoðunar og að prestar kirkjunnar sjálfir líta á hana sem ríkisstofnun eins og þessi orð séra Bjarna Þórs Bjarnasonar sýna mjög skýrt:

 Þetta eru svokölluð embættismannaskipti en til þeirra er verið að hvetja hjá stofnunum ríkisins. Þetta er tilbreyting fyrir alla, #

Ímyndum okkur nú í augnablik að í einhverri annari opinberri stofnun kæmi upp mál sambærilegt þeim málum sem kirkjan glímir nú við vegna þöggunar og meðvirkni sinnar í kjölfar endurtekinna kynferðisbrota Ólafs Skúlasonar. Að út kæmi skýrsla þar sem að margir lykilmenn stofnunarinnar, þ.á.m. æðsti stjórnandi hennar, fengju ákúrur. Og að æðsti stjórnandinn yrði m.a. uppvís að því að hafa í fortíðinni beitt sér til þess að ná niðurstöðu í máli þar sem hann hafði þegar tekið opinbera afstöðu með yfirmanni sínum og gegn þeim sem ásökuðu hann um kynferðisbrot. Að eftir að hann tók við sem æðsti stjórnandi hafi hann stungið vitnisburðis sem kæmi fyrrverandi yfirmanni sínum, sér sjálfum að ákveðnu leiti og ekki síst stofnuninni ákaflega illa undir stól í eitt og hálft ár. Og að það hafi þurft skjalavörð og pressu frá fjölmiðlum til þess eins að hann viðurkenndi tilvist vitnisburðarins.

Ætli stjórnandinn – og fleiri sem hefðu komið við sögu – fengju sjálfdæmi um viðbrögð stofnunarinnar við niðurstöðu rannsóknar? Ætli hann myndi eiga langa lífdaga í embætti ef hann kæmi fram og bæðist afsökunar EF hann hefði brugðist rangt við og að það hafi ekki haft nein áhrif á úrvinnslu vitnisburðarins gegn fyrrverandi yfirmanninum að hann hafi setið á honum í eitt og hálft ár? Og hvernig myndi það líta út þegar einungis einn af opinberu embættismönnunum sem tilheyrðu stofnuninni hefðu komið fram opinberlega og beðið æðsta stjórnandann um að íhuga alvarlega að segja af sér?

Ríkiskirkjan hér á Íslandi hefur alltof lengi fengið að hafa forréttindastöðu. Ein helsta vörn ríkiskirkjusinna er að benda á að hún sé nauðsynleg siðferði landsins. Málefni Ólafs Skúlasonar sem fyrst komu upp á yfirborðið fyrir 15 árum, ásamt vandræðum kirkjunnar vegna ýmissa annara mála sem komið hafa upp á síðkastið hér á landi og tengjst kynferðislegri brenglun klerka, afsanna í eitt skipti fyrir öll að íslenska ríkiskirkjan er ekki í fararbroddi í siðferðismálum á Íslandi. Það er sama hvort talað er um klerkana sem brjóta af sér eða kollega þeirra sem bregðast við. Með örfáum undantekningum hafa prestar ríkiskirkjunnar afsalað sér kyndlinum sem boðberar góðs siðferðis á Íslandi. Og það er kominn tími til þess að forréttindastaða þessa laskaða og forneskjulega trúfélags verði afnuminn.

Í það minnsta hvet ég þau ykkar sem eruð í ríkiskirkjunni og ofbýður atferli þjóna hennar að breyta trúfélagaskráningu ykkar. Það eru til mörg sjálfstæð trúfélög innan sömu trúar (t.d. fríkirkjurnar) og svo er líka bara fínt að vera utan trúfélaga. Hér er hægt að breyta trúfélagaskráningunni.