Í Mogga í dag er sagt frá því að leikskólakennurum fari nú fækkandi í leikskólum Reykjavíkurborgar. Af hverju ætli það sé nú?
Gæti það verið af því að borgin ákvað að hunsa óánægjuraddirnar sem upp komu vegna illa ígrundaðra niðurskurðaráætlana í leik- og grunnskólum? Að einhverjum hafi blöskrað að faglegi grundvöllurinn hafi verið ein rannsókn, framkvæmd af formanni starfshópsins sem lagði til niðurskurðinn, sem tók ekki til sambærilegra ytri aðstæðna? Að það hafi hleypt illu blóði í fólk að málið var ekki betur ígrundað en það að ekki lá fyrir hvað hver sameining myndi spara? Að það eina sem lagt hafi verið til grundvallar sameiningu skólastofnanna hafi verið landakortið en ekki hvort að þær hafi verið hugmyndafræðilega líkar?
En að þetta hafi verið gert á sama tíma og leikskólakennarar standa í kjaraviðræðum eftir að hafa verið samningslausir frá 2008? Gæti það hafa haft einhver áhrif á langlundargeðið?
Þegar ákvarðanir eru teknar verður að vega og meta hverjar afleiðingarnar geta orðið. Borginni var gert ljóst hverjar afleiðingar þessara aðgerða gætu orðið. Fórnarkostnaðurinn var augljós þeim sem vildu á annað borð vita af honum.
Sú staða sem blasir við borgaryfirvöldum í dag er algjörlega þeim sjálfum að þakka. Verði þeim að góðu.