Svo virðist sem að „lending“ Stjórnlagaráðs hvað varðar ákvæði um ríkiskirkju sé sú að tryggja stöðu ríkiskirkjunnar áfram. Nú er ákvæðið komið með sinn eigin kafla sem heitir „Þjóðkirkjan“ og er hann í þeim hluta tillagna Stjórnlagaráðs sem fjallar um undirstöður samfélagsins. Ég er eiginlega að hugsa um að endurtaka þetta svo að það fari ekki á milli mála hver millileiðin á milli þess að hafa ríkiskirkju í stjórnarskrá og að aðskilja ríki og kirkju er í augum stjórnlagaráðsfulltrúa: Í kafla sem fjallar um undirstöður þjóðfélagsuppbyggingarinnar hér á landi er sérstakur kafli sem heitir „Þjóðkirkjan“.
Í kaflanum segir að alþingi eigi að ákveða, og nú ætla ég að feitletra, kirkjuskipan, og nú breyta um lit til áherslu, ríkisins!
Ennfremur að allt sem alþingi ákveði í þessum málum verði að fara í þjóðaratkvæði, sem er engin breyting frá því sem nú er.
Ég ætla að vitna í orð nokkurra valinkunnra einstaklinga sem féllu merkilegt nokk á sérstakri síðu ríkiskirkjunnar um stjórnlagaþing sem nú virðist hafa verið tekin niður af einhverjum ástæðum:
Já, ég tel þörf á að breyta 62.grein stjórnarskrárinnar. Ég vil tryggja trúfrelsi á Íslandi þannig að allir einstaklingar hafi jafna möguleika á iðka þá trú sem þeir kjósa.
Hver er afstaða þín til núverandi sambands ríkis og þjóðkirkju?Ég vil afnema það samband sem í dag ríkir á milli ríkis og þjóðkirkjunnar.
-Ástrós Gunnlaugsdóttir
Að minni hyggju er ekki aðeins verið að tala um að gera breytingar á stjórnarskrá heldur að semja og setja nýja. Í samræmi við það falla allar greinar hinnar gömlu úr gildi og verða tæpast endurskrifaðar óbreyttar í hina nýju. Trúfrelsi finnst mér svo sjálfsagt að það hljóti að heyra undir almenna frelsisskilmála. Því tel ég að fella beri greinina burt án þess að nokkur ákvæði komi í hennar stað.
-Erlingur Sigurðarson
Ég tek það einfaldlega tímaskekkju að ein kirkjudeild njóti sérstaks stuðnings ríkisins. Meðan svo er get ég ekki séð að fullt trúfrelsi ríki í landinu, þar eð sú kirkjudeild mun ævinlega hafa mikið forskot á aðrar kirkjudeildir og önnur trúfélög.
-Illugi Jökulsson
Ég hygg að væru menn að skrifa stjórnarskrána frá grunni í þá væri
afar ólíklegt að lagt yrði til að ein trúarskoðun eða eitt trúfélag
yrði tilgreint sérstaklega með hætti sem nú er gert. Mér fyndist því
eðlilegt að þessi umrædda grein myndi víkja úr stjórnarskráni. Í því
felst ekki árás á þá trúarskoðun eða það trúfélag heldur, heldur
byggist þetta á þeirri skoðun að ríkið eigi að vera hlutlaust þegar
kemur að trúmálum.-Pawel Bartosek
Auk ofangreindra lýstu Freyja Haraldsdóttir, Ómar Ragnarsson, Silja Bára Ómarsdóttir, Vilhjálmur Þorsteinsson Þórhildur Þorleifsdóttir og Örn Bárður Jónsson* því yfir að þau teldu að aðskilja ætti ríki og kirkju. Glöggir sjá að hér er um meirihluta að ræða innan stjórnlagaráðs.
Það tekst kannski einhverjum að það sem hér er vitnað í að ofan, auk almennra yfirlýsinga um stuðning við aðskilnað ríki og kirkju, ríma við „lendingu“ stjórnlagaráðs. Ég get það ekki. Mér finnst niðurstaðan lykta af því að látið hafi verið undan ríkiskirkjusinnum til að halda einhvern frið. Í leiðinni var vilji meirihluta þjóðarinnar, meirihluta stjórnlagaráðs og tveggja þjóðfunda hundsaður. Það eru mikil vonbrigði.
*Túlkun Arnar Bárðar á þessu er þó frekar skrýtin. Hann telur aðalatriðið að ríkið hætti að skipta sér af innri málum kirkjunnar, að hún stjórni sér sjálf, og að það hafi nú þegar náðst í gegn. Hann vill áfram að ríkið fjármagni kirkjuna.