Jón Valur Jensson brjálast yfir tilvonandi jafnræði lífsskoðana

Jón Valur Jensson er brjálaður. Og af hverju er JVJ brjálaður? Jú, af því að nú á að fara að veita enn einum hópnum sem er öðruvísi en hann er sjálfur sömu réttindi og hann hefur. Þetta virðist fara illa í JVJ. Ég ætla aðeins að fara yfir það sem þessi mikli mannréttindavinur skrifar um þær fáránlegur tillögur sem munu von bráðar koma fram á þingi um að lífsskoðunarfélög sem ekki byggja á trú fái sömu réttindi og trúfélög.

Þau fyrrnefndu eru með hraðsuðunámskeið fyrir „fermingarbörn“ sín, en nánast ekkert samfélag um mannrækt né siðrækt eftir það.

Hér talar JVJ í fleirtölu en staðreyndin er að svona breyting myndi bara hafa áhrif á eitt félag á Íslandi, Siðmennt. Og hefur mannvinurinn mikli rétt fyrir sér? Öhh, nei. Siðmennt býður upp á giftingar, útfarir, nafngjafarathafnir auk borgaralegu fermingarinnarsem JVJ kallar af einhverjum ástæðum hraðsuðunámskeið. Einhvern tíma hefði það þótt furðuleg nafngift á námskeiði sem inniheldur tólf 80 mínútna kennslustundir.

Auk þessa heldur Siðmennt fundi og námskeið um málefni sem tengjast húmanisma og jafnrétti lífsskoðana ásamt því að félagið kemur öðru hverju að því að flytja inn erlenda fyrirlesara. Þetta er engan vegin tæmandi upptalning á starfi Siðmenntar, en hún ætti að sýna fram á að fordómar JVJ eru, tjahh, bara fordómar.

Nefnd lífsskoðunarfélög „miða starfsemi sína við siðferðisgildi og mannrækt,“ en naumast er nokkur samfella né samræmi meðal trúlausra um grunn sinna siðferðisgilda, enda fjöldamargt (og innbyrðis ósamstætt) til í vopnabúri hinna ólíkustu heimspekinga og siðfræðinga veraldlegra, sem trúausir geta leitað til, en seint orðið sammála um. Eru þar sumir efahyggjumenn, aðrir dogmatískir í sinni afneitun og enn aðrir dogmatískir um óvissuhyggjuna.

Þetta á auðvitað ekki við um trúfélögin sem njóta stuðnings og styrkja ríkisins í dag. Það er mikil samfella og samræmi á milli kaþólskra, múslima, ásatrúarmanna og svo aðventista eins og ég er viss um að JVJ samþykkir fúslega. Trúarleiðtogar og guðspjallamenn eru meira og minna allir þeir sömu hjá trúarhópum heimsins og litlar deilur um siðferðisgildi og kennisetningar.

Markmið þeirra breytinga, sem ráðherrann hyggur á, mun vera „að tryggja jafnræði“, en þetta mun trúlega leiða til þess, að sjóðir safnast upp hjá Siðmennt og jafnvel herskáum trúleysingjum.

Já, það væri nú auðvitað hræðilegt ef einhverjir sjóðir söfnuðust upp hjá Siðmennt og lítið jafnræði í því.

En JVJ er eiginlega alveg örugglega að vísa til Vantrúar þegar hann talar um „herskáa“ trúleysingja. Látum vera  að þegar talað er um herskáa trúmenn þá er í mörgum tilfellum átt við einstaklinga og hópa sem beita ofbeldi og jafnvel hryðjuverkjum en að herskáir trúleysingjar eru fólk sem gengur svo langt að hreinlega skrifa greinar á internetið og í blöðin!

En Vantrú er ekki lífsskoðunarfélag í anda Siðmenntar. Félagið hefur aldrei sóst eftir samskonar skilgreiningu og mun ekki gera það nema að gerðar verði grundvallarbreytingar á eðli og stefnu félagsins. Vantrú er á móti því að ríkið styrki trúar- og lífsskoðanir. Fólk sem vill tilheyra trú- og lífsskoðunarfélögum á einfaldlega að standa undir kostnaði þeirra sjálft.

Þannig að hógværi trúmaðurinn Jón Valur Jensson þarf ekki að hafa áhyggjur af því að Vantrú fái hreinlega peninga frá ríkinu eins og hvert annað trúfélag.

Eins og önnur lagafrumvörp heimshyggjunnar, sem gengið hafa gegn kristnum sið í landinu, mun þetta frumvarp eflaust fá forgangsmeðferð á þingi vinstri flokkanna…

Gengið hafa gegn kristnum sið í landinu! Það er aldeilis. Það að ásatrúarfólk, múslimar, hindúar, gyðingar, búddistar og fólk af hvaða öðrum trúarbrögðum sem eiga sér sögu geti (og hafi í mörgum tilfellum) stofnað trúfélög og fengið sóknargjöld og stuðning og vernd hins opinbera er í fínu lagi. En að það sama gildi um Siðmennt er hreinlega aðför að kristnum sið í landinu!

Auðvitað er þetta fáránlegur málflutningur manns sem getur ekki samþykkt það að heimurinn hagi sér ekki eftir grillunum sem lifa í höfðinu á sér. Og sjálfsagt er algjör óþarfi að benda á hversu veikum fótum svona áróður stendur. En stundum þarf maður bara að pústa aðeins, þegar fordómar illa áttaðs fólks menga andrúmsloftið.

Greinin birtist fyrst á Vantrú.