Einelti er alvarlegt vandamál. Það tekur mikið á fólk að lenda í einelti og fólk getur verið lengi að vinna sig úr því. Það kemur fyrir að þeir sem lenda í einelti nái sér aldrei eftir þá reynslu.
Umræðan um einelti á Íslandi er því miður meingölluð. Á öðrum pólnum höfum við þá sem að vilja leggja mesta áherslu á þau slæmu áhrif sem einelti hefur. Umfjöllun DV um einelti síðustu vikur og mánuði hefur svolítið litast af þessu. Flökkustatus á Facebook þar sem fórnarlömbum eineltis er líkt við krumpaðan og „varanlega skemmdan“ pappír er af þessum rótum. Ég efast um að það hjálpi þeim sem annað hvort glíma við einelti eða afleiðingar þess að heyra og fá þann dóm að þeir séu varanlega skemmdir.
Boðskapurinn og hugsunin sem liggur þarna á bakvið er þó í grunninn góður, þó að hann smitist af tilfinningaklámsblæti. En svo er það hinn póllinn í gölluðu umræðunni. Það eru þeir sem gera lítið úr einelti.
Landsstjórn Landssambands Framsóknarkvenna sakar Egil Helgason um einelti af því að hann birti myndband þar sem þingkonu flokksins, Vigdísi Hauksdóttur, verður fótaskortur á tungunni. Það er svo ekki langt síðan Álfheiður Ingadóttir notaði þetta orð yfir það þegar Björn Bjarnason ásakaði hana og Atla Gíslason um að veitast að lögreglunni.
Svona væl gengisfellir orðið einelti alveg rosalega. Það sem þarna var á ferðinni er ekkert líkt því sem gerist þegar um raunverulegt einelti er að ræða.
Það virðist vera orðið viðkvæðið að allir sem telja á sér brotið séu fórnarlömb eineltis. Sjá t.d. þetta brot úr aðsendri grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag, höfundur er Guðbjörg Snót Jónsdóttir guðfræðingur:
Þær hreyfingar sem kalla sig Vantrú og Siðmennt hafa lagt þjóðkirkjuna í einelti í langan tíma og varla linnt látum í þeim efnum og kórónuðu það með ályktun fulltrúa þeirra og Margrétar Sverrisdóttur um samskipti kirkjunnar og skólanna nýlega.
Þjóðkirkjan á Íslandi er lögð í einelti af tveimur félögum sem eru fámennari til samans en flestar sóknir landsins. Finnst einhverjum þetta vera boðlegur málflutningur? Er virkilega ekki hægt að sýna þolendum eineltis þá virðingu að nota einhver önnur orð en einelti þegar vælt er undan því að maður sé sviptur forréttindum?
Seinna í greininni er þetta að finna (þarna er vísað til Margrétar Sverrisdóttur):
Henni veitti greinilega ekki af að læra um einelti og hvað það er, eins og hún hefur hugsað og talað í þessum efnum.
Einhverjum veitti ekki af því að fræðast um einelti. En ég held að við Guðbjörg séum ekki sammála um hver það er.