Dylgjur Vals Arnarssonar

Ég tók fyrst eftir Vali Arnarsyni í umræðum við bloggfærslu fyrir tæpu ári síðan. Mér fannst hann ekki góður málsvari fyrir trúarbrögðin sín þá og sú skoðun mín hefur ekki breyst eftir því sem ég hef séð meira frá honum. Ef bloggfærslan og umræðurnar eru skoðaðar sést að Valur skildi ekki það sem Hjalti Rúnar skrifaði. Og því meira sem reynt var að útskýra fyrir honum því reiðari varð hann, kallaði okkur Vantrúarfólk ósiðlegt og fór að nota þá ömurlega barnalegu taktík að reyna að tala niður til okkar með því að kalla okkur „snúlla“ og annað í þeim dúr. Svona vanstilling er reyndar furðulega algeng í trúmálaumræðum þannig að ég kippti mér svosem lítið upp við þetta. Eitthvað virðumst við Vantrúarfélagar þó hafa lagst á sálina á Vali því að hann hefur ítrekað hnýtt í okkur á leiðinlegan og ómálefnalegan hátt, oft án nokkurs sýnilegs tilefnis. Ég er reyndar fyrir löngu hættur að nenna að lesa það sem Valur skrifar og því missti ég af því að hann sendi mér pillu í athugasemd við bloggfærslu Jóns Magnússonar um nýsamþykktar reglur um samskipti trú- og lífsskoðunarfélaga við skóla í Reykjarvíkurborg. Það var ekki fyrr en ég sá vitnað í Val á annari bloggsíðu að ég áttaði mig á því að hann hefði yfirhöfuð minnst á mig. Þetta var það sem hann hafði að segja:

Það er rétt sem þú segir, tillögurnar eru skýr merki um mjög alvarlega fordóma í garð trúfélaga og lífsskoðanna fólks. Það sem verra er, eru afleiðingarnar sem fáviskugjörningur þessi leiðir af sér. Með þessu móti eiga trúfélög engan málsvarnaraðila innan veggja menntastofnanna og því geta kennarar, eins og Egill Óskarsson og Brynjólfur Þorvarðarson, heilaþvegið börnin okkar með allskonar ranghugmyndarugli um meint innihald Biblíunnar. En eftir því sem ég best veit eru þeir félagar kennarar hér í borg og meðlimir í öfgasamtökunum Vantrú.

Alla jafna skiptir það mig engu máli hvað fólk eins og Valur hefur um mig að segja, fyrir svo utan það að ég sé ekki hverju reglur um samskipti trú- og lífsskoðunarFÉLAGA eiga að breyta um þau áhrif sem kennarar geta haft. Boðun trúar- og lífsskoðana er nú bönnuð í Reykjarvíkurborg, það gildir jafnt um kennara sem presta. Eins og Valur vissi ef hann skildi reglurnar.

Já og svo vinn ég ekki hjá borginni. Ekki frekar en Brynjólfur sem býr yfirhöfuð ekki á Íslandi.

En það sem varð til þess að ég sé mig tilknúinn til að skrifa aðeins um þessi ummæli Vals eru dylgjurnar og aðdróttanirnar sem í þeim felast. Valur er ekki bara að taka einhverja kennara sem hann þekkir sem handahófskennt dæmi. Hann nefnir tvo trúlausa kennara og bætir því svo við, til að það fari ekkert á milli mála hvers konar hætta blasir nú við eftir að reglurnar voru samþykktar, að við séum meðlimir í „öfgasamtökunum“ Vantrú.

Getur þú, kæri lesandi, ímyndað þér hversu illa það kæmi sér fyrir mig ef foreldri barns á leikskólanum sem ég vinn á læsi þessi orð Vals og héldi jafnvel að þarna væri á ferðinni málsmetandi maður? Að það væri einhver ástæða fyrir þessum dylgjum hans? Að þetta væri raunverulega hætta?

Ég hef ýmsar skoðanir og ég aðhyllist hina og þessa hugmyndafræðina. Ég er trúlaus, ég vil aðskilja ríki og kirkju, ég er hægri sinnaður, ég skil ekki þörfina á heildstæðri endurskoðun á stjórnarskránni, ég held með Man Utd, ég er HK-ingur og ég er hitt og þetta.

Þegar ég er í vinnunni þá er ég hins vegar fyrst og fremst leikskólakennari og sem slíkur þá boða ég ekki mínar prívat og persónulegu skoðanir. Ekki lífs- og trúarskoðanir mínar, ekki pólitískar skoðanir mínar, ekki skoðanir mínar á íþróttafélaginu Breiðablik. Það er ekki mitt hlutverk heldur hlutverk fjölskyldunnar.

Sem er einmitt það sem reglurnar sem verið var að samþykkja í borginni snúast um. Ég hef stutt þessar reglur af því að ég lít svo á að boðun trúar- og lífsskoðana eigi að vera á hendi fjölskyldu en ekki skóla. Það gildir jafnt um mínar skoðanir sem aðrar.

-bætt við kl. 23:08

Valur hefur nú beðist afsökunar á ummælun sínum á bloggi Jóns og í athugasemd hér á þessari síðu. Er hann maður að meiri fyrir vikið.