Gídeonforsetinn og mannréttindi barna

Svo óvenjulega vildi til að ég horfði á fréttirnar á Stöð 2 í gærkvöldi. Þar var fjallað um nýsamþykktar reglur Reykjavíkurborgar um samskipti lífsskoðunar- og trúfélaga við menntastofnanir þar sem loksins er kveðið skýrt á um að trúboð verður ekki stundað í leik- og grunnskólum borgarinnar (eða í dægradvölum þeirra síðarnefndu). Eins og gefur að skilja var eini viðmælandi fréttastofunnar nýr forseti Gídeonfélagsins. Ég held allavega að hann sé nýr. Þetta var í það minnsta ekki Fjalar Freyr sem ennþá er skráður forseti á síðu ríkiskirkjunnar. Fjalar Freyr hefur þó reyndar lengi skammast sín fyrir að gegna þessu embætti eins og ég hef bent á áður. Þá er lítið að græða á heimasíðu Gídeonfélagsins á Íslandi, þið eruð allavega klárari á netið en ég ef þið finnið á síðu félagsins hverjir eru í stjórn þess.

En nýji forsetinn, sem ég náði ekki nafninu á, er þeirrar skoðunar að skilningur Reykjarvíkurborgar á mannréttindum sé eitthvað skrýtinn. Það sé nefnilega ekki mannréttindi að minnihlutinn geti haft af meirihlutanum það góða samstarf sem hefur ríkt á milli trúfélaga og skóla hingað til.

Það eru s.s. ekki mannréttindi þegar meirihlutinn getur ekki haft sitt fram lengur fyrir vælinu í minnihlutanum.

Það hefur einhver skrýtnar skilgreiningar á mannréttindum en ég held að það sé nokkuð ljóst að það er ekki borgin.

Mannréttindi snúast ekki um meirihluta eða minnihluta. Þau snúast um rétt einstaklinga. Þau snúast um að virða ólíkar skoðanir og ólík gildi. Ef að barni og foreldrum þess er stillt þannig upp við vegg að annað hvort taki barnið þátt í trúarathöfnum trúarbragða sem það tilheyrir ekki eða þá að það sé fjarlægt frá úr sínum hefðbundna hóp á meðan þá er ekki verið að virða réttindi barnsins. Alveg óháð öllum meiri- eða minnihlutum.

Gídeonfélagið er trúboðafélag. Félagið hefur þann tilgang að „ávinna menn og konur fyrir Drottinn Jesú Krist“. Dreifing NT til grunnskólabarna er ein helsta aðferð félagsins í trúboðinu hér á landi. Félagsmenn leitast við að lesa upp úr ritinu fyrir börnin þegar þeir mæta inn í bekki. Þeir vilja líka biðja með  börnunum.

Þetta er klárt trúboð. Og skilningur félagsmanna er ekki meiri en svo að þeir halda að svo lengi sem þeir hafi einhvern óskilgreindan meirihluta með sér þá geti þeir ekki verið að brjóta á réttindum barna sem ekki eru kristin.

Mikið ofboðslega er ég feginn að þetta fólk fái ekki lengur aðgang að grunnskólabörnum á skólatíma.