Í síðustu viku var fyrsta staðlotan mín í Háskólanum á Akureyri þessa önnina. Sú hefð hefur skapast í fjölskyldunni minni að fara í bústað á aðventunni til þess að slaka á og eiga góðar stundir saman fyrir jólin en eftir að við bræðurnir byrjuðum allir í háskólanámi gekk það ekki lengur upp. Á seinasta ári ákváðum við því að færa þá ferð yfir á fyrstu lotuferðina mína í Háskólanum á Akureyri og dvelja saman í einum af þeim bústöðum sem KÍ hefur yfir að ráða í Kjarnaskógi á Akureyri. Það heppnaðist vel og því var það endurtekið í ár.
Við höfum alla jafna ekki verið mjög aktíf í þessum ferðum hingað til enda hafa þær fyrst og fremst snúist um kósýheit og afslöppun en Eva, kærastan mín, kom með þá hugmynd í ár að við gætum kíkt í Bruggsmiðjuna á Árskógssandi.
Þetta var auðvitað frábær hugmynd. Ég er, eins og margir vita, talsvert bjórnörd. Ég til dæmis skrifa um bjór á hinni frábæru matarsíðu matviss.is. Mér finnst bjór mjög merkilegur drykkur og pæli mikið í honum. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvort að ég var ekki glaður með kærustuna þegar hún stakk upp á ferð í brugghús í þessari ferð. Eva er auðvitað best.
Og þessi heimsókn var ekkert annað en frábær. Agnes, sem stofnaði Bruggsmiðjuna ásamt Ólafi eiginmanni sínum, tók á móti okkur og byrjaði auðvitað á því að skenkja okkur bjór. Hún fór í gegnum sögu fyrirtækisins sem byrjaði sem brjáluð hugmynd en er orðin að einhverju flottasta fyrirtæki landsins. Þegar talað er um frumkvöðlastarfsemi þá er Bruggsmiðjan einmitt gott dæmi. Þau fengu hugdettu, létu hana rætast og fyrirtækið gengur vel í dag.
Agnes fór vel í gegnum ferilinn sem varð til þess að fyrsti bjór Kalda varð til. Mér fannst merkilegt að heyra að þau hikuðu ekki við að kaupa sér sem bestu bruggunartækin til að byrja með en áhugaverðast fannst mér að heyra að þau fengu strax frá upphafi með sér hörku bruggmeistara, David Masa. David hannaði fyrstu bjórana sem við þekkjum sem Kalda og það þarf ekki nema að smakka þá bjóra til þess að vita að þar er maður sem veit hvað hann er að gera.
Bruggsmiðjan var fyrsta örbrugghúsið hér á landi og allt frá byrjun hefur það staðið fyrir ákveðin gæði í bruggun bjórs. Maður veit það orðið þegar maður smakkar bjór frá Kalda að þar er á ferðinni gott brugg. Arftaki David er að einhverju leyti Kristinn Ingi Valsson, sem hlýtur að teljast meðal efnilegustu bruggmeistara á Íslandi. Hann á heiðurinn af seinasta Sumar Kalda sem var áhugaverðasti sumarbjór íslensku brugghúsana seinasta sumar. Kristinn er ennþá að læra fagið en miðað við sumarbjórinn þá má búast við miklu af honum.
En að heimsókninni aftur. Agnes er góður gestgjafi og gaf mikið af sér í heimsókninni. Hún ræddi opinskátt við okkur um rekstur fyrirtækisins hingað til og hugsanleg áform þess í framtíðinni. Kannski fengum við, bara sjö manna hópur, persónulegri þjónustu en stærri hópar en þetta var virkilega ánægjuleg heimsókn. Þarna voru staddir fagmaður í tæknifræði og brunahönnun, nemi í hagfræði, nemi í lögfræði, nemi í viðskiptafræði, nemi í lífeðlisfræði, leikskólakennari og nemi í menntavísindum og svo mamma, sem veit alltaf best og við vorum öll sannfærð um að þetta væri vel rekið fyrirtæki, í góðu og hentugu húsnæði sem uppfyllir alla kröfur, sem hefur skemmtilegar hugmyndir um framtíðina og þekkir sinn markað. Það var líka virkilega gaman að heyra, fyrir mig sem er að læra stjórnun, að starfsmannstefna fyrirtækisins er að gera vel við fólkið sem vinnur þar. Þannig hefur þeim tekist að koma í veg fyrir starfsmannaveltu að mestu leyti.
Og svo er bjórinn þeirra bara verulega góður.