Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður Pírata segir í viðtali við Vísi.is að það sé ómögulegt fyrir þingmenn að kynna sér ný lög nógu vel áður en þeir samþykkja þau. Þetta viðtal er tekið í kjölfar þess að Helgi baðst afsökunar á því að hafa samþykkt lög sem gefa Tryggingastofnun auknar heimildir til þess að krefjast ýmissa upplýsinga um skjólstæðinga sína vegna örorkumats.
Ég tek það fram að ég virði það við Helga að hann hafi beðist afsökunar á þessu. Það er skemmtileg nýbreytni að þingmenn viðurkenni það að þekkja ekki þau lög sem þeir samþykkja og biðjist afsökunar á því þegar í ljós kemur að lögin séu ekki góð. Hinsvegar væri auðvitað best að þeir kynntu sér lögin.
Það er líklega erfitt fyrir fámenna þingflokka að kynna sér öll mál sem koma fyrir þingið og nefndir þess í hörgul. Reyndar held ég að það sé erfitt fyrir alla þingmenn ef út í það er farið. Ýmsar útfærslur og afleiðingar laga geta haft áhrif sem ekki er auðvelt að sjá við yfirlestur á frumvarpi. En einmitt þess vegna er óskað eftir umsögnum sérfræðinga og hagsmunaaðila.
Slíkar umsagnir voru sendar inn vegna málsins sem um ræðir. Öryrkjabandalagið benti á þá vankannta sem mest hafa verið ræddir. Væntanlega hefur verið fjallað um þá umsögn í þeim þingnefndum sem höfðu málið til umfjöllunar.
Ég veit ekki hvernig manni átti að detta í hug af fyrra bragði að safna þeim upplýsingum sem þurfti til að átta sig á því sem fólk síðan hafði út á að setja
En þá hugsaði ég með mér, mikið væri nú gott að hafa nánari aðkomu einhverra annarra nörda úti í bæ sem að eru að pæla í einstaka tölum og hafa færi á að vekja athygli á því áður en ákvarðanir eru teknar
Það eru nú þegar nördar úti í bæ sem vekja athygli á ýmsum flötum þingmála áður en þau eru lögð til samþykktar. Þingið kallar eftir umsögnum þeirra (auk þess sem þeir senda þær oft að eigin frumkvæði) til þess að þingmönnum þurfi ekki að detta í hug að fyrrabragði að safna sér öllum þessum upplýsingum.
Ég hef komið að því að semja og senda umsagnir til þingnefnda, m.a. þegar óskað hefur verið eftir þeim af þinginu. Mér hefur ekki alltaf fundist mikið mark tekið á eðlilegum og vel rökstuddum athugasemdum. Ég hafði skrifað það á einhverja pólitík. Það horfir svolítið öðruvísi við ef þingmenn kynna sér einfaldlega ekki þær umsagnir sem liggja fyrir.
Ég veit auðvitað ekki hvort að Helgi Hrafn hafi ekki kynnt sér þær umsagnir sem lagðar voru fram eins og þá frá ÖBÍ, þó að mér finnist það felast í orðum hans. Og ef svo er, þá finnst mér í sjálfu sér ólíklegt að hann sé einn um það á þingi. En mikið ofboðslega finnst mér þetta bera vinnubrögðum á Alþingi slæman vitnisburð.