Nú berast af því fréttir að Menntaskólinn Hraðbraut muni hugsanlega hefja aftur rekstur. Skólinn var lagður niður í kjölfar þess að Ríkisendurskoðun gerði úttekt á rekstrinum og komst að því að greiddur hafði verið út arður sem skólinn stóð í raun ekki undir, að nemendur í honum hafi um árabil verið færri en þjónustusamningur hans við ríkið hafi sagt til um og skólinn því fengið tæpum 200 milljónum hærri framlög frá ríkinu en honum í raun bar og þess að eigandi hans hafi lánað aðilum tengdum sér 50 milljónir af rekstrarfé skólans.
Þarna var semsagt eitthvað skrýtið í gangi en eigandinn hefur fengið jákvæðar móttökur frá núverandi menntamálaráðherra um að hefja rekstur aftur.
En það sem ég hef verið að spá í undanfarið tengist Hraðbraut í sjálfu sér ekki beint, en það eru arðgreiðslur úr rekstri skóla. Nú er það svo að hreinir einkaskólar finnast varla hér á landi, þ.e. skólar sem reka sig algjörlega með skólagjöldum. Nemendum fylgir fé, það hefur verið stefnan hér, og því fá skólar úthlutað opinberu fé til reksturs síns. Samt er það svo að sé rekstrarfélag sjálfstæðs skóla hlutafélag (en ekki t.d. sjálfseignastofnun) þá geta eigendur hans greitt sér arð af rekstrinum. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um Hraðbraut kemur enda fram að arðgreiðslurnar hafi verið í samræmi við lög og þjónustusamning skólans, en að þær hafi hinsvegar ekki staðið undir sér þegar miðað er við að skólinn var að fá greitt of mikið miðað við nemendafjölda.
Finnst fleirum en mér þetta furðulegt? Að ég geti stofnað rekstrarfélag utan um skólahald, fengið úthlutað úr sjóðum sveitarfélags eða ríkis og greitt sjálfum mér arð af því fé? Og áður en einhver fer að tala um að í slíkum skóla væri hægt að innheimta skólagjöld þá vil ég benda á að forsendurnar fyrir því að hægt sé að reka t.d. framhaldsskóla eru einmitt þessi opinberu gjöld. Það er engin að fara að greiða að fullu kostnaðinn við sitt eigið (ólánshæfa) framhaldsskólanám. Hvað þá ef að ofan á það bættist kostnaður svo að eigandi gæti greitt sér arð úr rekstri skólans.
Það er eitt að hreinir einkaskólar geti greitt eigendum sínum arð (umræðan um hvort eðlilegt sé að reka menntastofnanir sem gróðafyrirtæki kemur kannski seinna). En að það sé yfirhöfuð leyfilegt að skólar sem engin rekstrargrundvöllur væri fyrir ef ekki kæmu til greiðslur úr sjóðum sveitarfélaga eða ríkis greiði eigendum arð skil ég engan veginn.