SÍS í skrýtnum leik – aftur

Ég fékk í hendurnar leyfisbréf sem leikskólakennari í júní árið 2011. Þá var staðan í kjaramálum leikskólakennara ekkert sérstök. Við vorum í raun tveimur samningum á eftir viðmiðunarstéttum þar sem samningur okkar brann inni í hruninu. Um það má lesa hér. Ég kom beint inn í stétt í kjarabaráttu, stétt sem var á leið í verkfall.

Degi eða tveimur áður en boðað verkfall átti að hefjast náðust samningar. Samningurinn var að ég held ágætur miðað við stöðuna sem var uppi en eitt það mikilvægast í honum var bókun sem í raun staðfesti það að leikskólakennarar ættu að vera á sambærilegum launum og viðmiðunarstéttir – sem eru fyrst og fremst kennarar á öðrum skólastigum.

Nú þremur árum síðar stöndum við aftur í kjarabaráttu. Núna er staðan sú að það er nýbúið að semja við viðmiðunarstéttirnar. Fyrir liggur bókun þar sem viðsemjendur okkar viðurkenndu að við ættum að búa við sambærileg kjör og þær. Samt sem áður virðast samningaviðræður ganga hægt og búið er að boða eins dags verkfall þann 19. júní. Af hverju gengur þetta svona hægt? Hafa viðsemjendur okkar, sveitastjórnir á landinu í gegnum Samband íslenskra sveitarfélaga skipt um skoðun? Ef svo er, er þá ekki svolítið mikilvægt að gert sé grein fyrir því hvaða rök liggja fyrir því?

En það er svo margt skrýtið við þetta ágæta samband sveitarfélaga. Fyrir þremur árum skellti sambandið út furðulegu spili inn í miðjar viðræður (hér og hér). SÍS lagði hreinlega til að sveitarfélög og leikskólastjórar fremdu verkfallsbrot með því að halda leikskólum opnum. Leikskólastjórar voru settir í slæma stöðu og urðu eðlilega ósáttir. Á endanum voru þessi tilmæli dregin til baka.

Í gær gerist það svo að SÍS sendi nánast samhljóðandi tilmæli til leikskólastjóra. Tilmæli sem sambandið dró sjálft til baka fyrir þremur árum. Tilmæli sem sambandið veit að fela að öllum líkindum í för með sér verkfallsbrot. Tilmæli sem stilla leikskólastjórum og öðru starfsfólki leikskóla sem ekki er í FL upp á móti leikskólakennurum.

En það er svosem ekki erfitt að sjá hver tilgangurinn er. Pólitíkusarnir sem stjórna SÍS eru jú akkúrat það, pólitíkusar. Og þetta er í raun bara ósköp hefðbundin pólitík sem snýst um það að hafa áhrif á almenningsálitið.

Sambandið vill fyrst og fremst stilla leikskólakennurum upp á móti börnum og foreldrum. Það vill gefa í skyn að leikskólar geti bara víst starfað þó að leikskólakennarar séu í verkfalli, en að vondu leikskólakennararnir standi í vegi fyrir því. Mér finnst ólíklegt að það verði gengið eftir því að farið verði eftir þessum tilmælum, enda var það líklega aldrei ætlunin. Það er algjört aukaatriði.

Sambandi íslenskra sveitarfélaga er stjórnað af pólitíkusum. Stjórn þess skipa í dag Halldór Halldórsson, Dagur B. Eggertsson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Björk Vilhelmsdóttir, Guðríður Arnardóttir, Gunnar Einarsson, Elín R. Líndal, Eiríkur Björn Björgvinsson, Gunnlaugur Stefánsson, Aldís Hafsteinsdóttir og Jórunn Einarsdóttir. Einhverjir af þessum einstaklingum munu fara úr stjórn á næstunni eftir sveitastjórnarkosningarnar en þeir bera í dag ábyrgð á athöfnum Sambandsins.

Það væri mjög áhugavert ef einhver myndi ganga á eftir því að þeir útskýrðu þetta seinasta útspil, og svo auðvitað hvort og þá hvað hafi breyst varðandi leikskólakennara og viðmiðunarstéttir frá árinu 2011.